sun 26. apríl 2020 11:00
Fótbolti.net
Sandra kenndi liðsfélaga sínum að synda
Brasilíska landsliðskonan Poliana í leik með Stjörnunni 2015
Brasilíska landsliðskonan Poliana í leik með Stjörnunni 2015
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Erlendir leikmenn sem hafa sett mark sitt á íslensku deildirnar voru til umræðu í nýjasta þætti Heimavallarins. Gestur þáttarins, Sandra Sigurðardóttir, er leikjahæst í sögu efstu deildar kvenna og hefur kynnst mörgum skemmtilegum karakterum í gegnum tíðina. Á meðal þeirra eru brasilísku landsliðskonurnar Poliana Barbosa Medeiros og Francielle Manolo Alberto sem léku með Stjörnunni sumarið 2015.

„Þær skildu mjög lítið í ensku og voru rosalega feimnar. Þær voru mjög góðar í fótbolta, mjög ólíkar. Poliana fór og spilaði í bandarísku úrvalsdeildinni eftir að hún var hjá okkur en ég held að Fran sé hætt í fótbolta,“ svaraði Sandra aðspurð um brasilísku liðsfélagana.

Brassarnir stöldruðu ekki lengi við og komast ekki á lista yfir bestu leikmenn sem hafa spilað á Íslandi en hæfileikaríkar voru þær og komu með nýja vinkla í leik Stjörnunnar. Sandra rifjar upp skemmtilega minningu frá Kýpurferð liðsins.

„Við fórum til Kýpur að spila í undankeppni Meistaradeildarinnar. Einn daginn áttum við að taka æfingu í sundlauginni á hótelinu. Önnur þeirra tók fyrir það og vildi ekki koma nálægt vatninu. Þá kom í ljós að hún kunni ekki að synda, en það er ekki óalgengt í Brasilíu.“

„Við ákváðum bara að kenna henni að synda og ég bara kenndi henni að synda. Mér fannst það ótrúlega gaman. Ég hélt henni bara fljótandi í vatninu og kenndi henni sundtökin,“
sagði Sandra.

Hægt er að hlusta á umræðuna á Heimavellinum hér að neðan:
Heimavöllurinn - Tilbúin í sitt tuttugasta tímabil
Athugasemdir
banner
banner
banner