Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   þri 26. maí 2020 23:30
Brynjar Ingi Erluson
Poborsky: Það var ómögulegt að berjast við Beckham
Karel Poborsky í leik með Manchester United
Karel Poborsky í leik með Manchester United
Mynd: Getty Images
Það voru miklar væntingar gerðar til Poborsky
Það voru miklar væntingar gerðar til Poborsky
Mynd: Getty Images
Karel Poborsky í leik með Tékklandi
Karel Poborsky í leik með Tékklandi
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Karel Poborsky, fyrrum leikmaður Manchester United og tékkneska landsliðsins, ræðir opinskátt um veru sína hjá enska félaginu í viðtali við FourFourTwo en hann segir að það hafi reynst honum ómögulegt að berjast við David Beckham um sæti í liðinu.

Poborsky skaust upp á stjörnuhiminnn á EM 1996 er Tékkland komst alla leið í úrslitaleikinn. Hann skoraði þar eftirminnilegt mark gegn Portúgal þar sem hann lyfti boltanum yfir Vitor Baia í markinu. Þessi skotstíll var lengi vel kallaður „Poborsky-vippan" og fékk hann í kjölfarið tilboð frá Manchester United.

Eignaðist vin í Eric Cantona

Það var menningarsjokk fyrir hann að mæta til Bretlandseyja eftir að hafa spilað í gömlu Tékkóslóvakíu. Hann spilaði í eitt og hálft ár hjá Man Utd en tókst aldrei að festa sæti sitt í liðinu.

„Að fara frá Slavia til Man Utd á þessum tíma var menningarsjokk. Þetta voru tveir ólíkir heimar. Þetta var risastórt skref á ferlinum og í lífinu. Man Utd var með frábæran hóp en ég talaði enga ensku og var það stærsta vandamálið," sagði Poborsky.

„Þegar maður var að alast upp í Tékkóslóvakíu þá var enska ekki kennd í skóla og við lærðum aðeins rússnesku. Það var auðveldara fyrir leikmenn sem komu frá öðrum löndum og gátu talað ensku."

„Það var þannig með Ole Gunnar Solskjær sem kom til Man Utd á sama tíma. Þegar maður fer á nýjan stað þá eru fyrstu tveir eða þrír mánuðirnir mikilvægastir til að sýna sig. Það er ekkert frábært þegar maður getur ekki tjáð sig almenninlega."

„Ole var mjög vinalegur og það voru margir aðrir leikmenn líka eins og Eric Cantona. Hann var svalur náungi og mjög rólegur í búningsklefanum. Hann sagði alltaf við mig að ef ég þyrfti eitthvað þá myndi hann hjálpa mér. Stundum er það þannig að bestu leikmennirnir eru eðlilegastir og hann var stórkostlegur leikmaður."


Sonur Johan Cruyff neitaði að spila fyrir varaliðið

Poborsky fann sig aldrei hjá United. Hann skoraði 5 mörk í 45 leikjum með liðinu. Besti leikur hans var í 4-0 sigri á Leeds þar sem hann skoraði glæsilegt mark og lagði upp annað.

„Ég var bara þarna í 18 mánuði. Það var ómögulegt fyrir mig að berjast við David Beckham um sæti í liðinu, þegar hann var að byrja magnaðan feril sinn. Ég er alls ekki bitur yfir því."

„Leikmennirnir tóku mig í sátt og ég reyndi alltaf að gera mitt besta þó ég hafi bara komið inn á í 20 mínútur í hverjum leik og ég hafði ekkert á móti því að spila með varaliðinu. Jordi Cruyff neitaði hins vegar að gera það."
sagði hann ennfremur.

Miklar væntingar gerðar til hans í heimalandinu

Poborsky var stjarna í heimalandinu og miklar væntingar gerðar til hans. Hann missti taktinn og mistókst Tékkum að komast á HM 1998.

„Þegar ég fékk tækifæri til þess að spila fyrir aðalliðið þá reyndi ég að sannfæra stjórann að ég væri með gæðin. Besti leikurinn minn var sennilega gegn Leeds þar sem ég skoraði mark sem var síðan valið mark mánaðarins og svo lagði ég líka upp í leiknum, en hver einasti leikur á Old Trafford var sérstök sund. Við unnum deildina og ég elskaði fagnaðarlætin."

„Ég vildi samt spila meira. Það voru ótrúlegar væntingar gerðar til mín þegar ég spilaði með landsliðinu og fólk bjóst við að ég myndi færa þeim kraftaverk af því ég var að spila fyrir eitt besta félag heims. Ég týndi taktinum og frammistöður mínar voru ekki í sama gæðaflokki og þær voru áður fyrir. Það mistókst síðan að komast á HM 1998."

„Ég ákvað að setjast niður með Ferguson og ég sagði við hann þó ég væri hjá einu besta félagi heims þá væri ég ekki nógu ánægður með stöðu mína. Ég vildi spila reglulega og hann skildi það og reyndi að koma mér á lán til Leeds eða Sheffield Wednesday en ég endaði hjá Benfica,"
sagði Poborsky í lokin.

Poborsky hélt til Portúgal og skoraði einmitt eftirminnilegt mark gegn Porto sem minnti á mark hans frá EM 1996 og var það sennilega tilviljun að Vitor Baia varði mark Porto á þeim tíma líkt og hjá Portúgal.

Þessi auðmjúki Tékki lagði skóna á hilluna árið 2007 og var nær dauða en lífi árið 2016 er hann fékk sýkingu í heila. Hann náði þó að jafna sig á því og er þakklátur fyrir að vera á lífi í dag.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner