Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   mið 26. maí 2021 22:54
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Solskjær: Við vorum einni spyrnu frá bikar og góðu kvöldi
Ole Gunnar Solskjær, stjóri Manchester United.
Ole Gunnar Solskjær, stjóri Manchester United.
Mynd: Getty Images
„Það er hljóð í búningsklefanum og menn eru vonsviknir," sagði Ole Gunnar Solskjær, stjóri Manchester United, eftir tap gegn Villarreal í úrslitaleik Evrópudeildarinnar í kvöld.

Manchester United hefur ekki unnið titil núna í fjögur ár og bíður Ole Gunnar Solskjær enn eftir sínum fyrsta titli. Man Utd tapaði í kvöld úrslitaleik Evrópudeildarinnar gegn Villarreal, liðinu sem hafnaði í sjöunda sæti spænsku úrvalsdeildarinnar.

„Svona er fótbolti. Stundum ræðst leikurinn á einni spyrnu, og það er munurinn á sigri og tapi," sagði Solskjær eftir tap í vítaspyrnukeppni.

„Við þurfum að læra af þessu. Við megum ekki muna eftir þessari tilfinningu, við þurfum að bragða á henni og passa upp á það að við finnum ekki fyrir henni aftur."

„Við spiluðum ekki eins vel og við gátum. Við byrjuðum allt í lagi og svo skoruðu þeir. Eina skot þeirra á markið. Við vorum svekktir að fá á okkur mark úr föstu leikatriði. Við ýttum, pressuðum og náðum að skora. Eftir leikinn náðum við ekki að stjórna leiknum eða gera það sem við vildum."

„Þeir vörðust vel og við náðum ekki að skapa nægilega mikið af færum."

Solskjær segir að United sé að komast nær því að komast á réttan stað. „Við erum að komast nær og nær, og við erum að verða betri. Við vorum einni spyrnu frá bikar og góðu kvöldi."

„Við verðum að þrá það að koma sterkari til baka á næsta ári og bæta okkur. Til þess að gera það, þá verðum við að leggja meiri vinnu á okkur."

Solskjær var spurður að því hvort tímabilið hefði verið gott og svaraði hann: „Nei."
Athugasemdir
banner
banner