fim 26. maí 2022 19:10
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Guðrún, Elías og Milos bikarmeistarar - Jónatan Ingi skoraði í sigri
Guðrún Arnardóttir.
Guðrún Arnardóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrsti titillinn sem Milos vinnur með Malmö.
Fyrsti titillinn sem Milos vinnur með Malmö.
Mynd: Getty Images
Elías Rafn Ólafsson.
Elías Rafn Ólafsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Við Íslendingar eignuðumst tvo bikarmeistara í Svíþjóð og einn í Danmörku á þessum fimmtudegi.

Landsliðskonan Guðrún Arnardóttir lék allan tímann fyrir Rosengård er liðið hafði betur gegn Häcken í úrslitaleik sem fór í framlengingu. Staðan var 1-1 eftir venjulegan leiktíma og því þurfti að framlengja leikinn.

Þar náði Rosengård að koma inn sigurmarki og er liðið því bæði ríkjandi deildarmeistari og bikarmeistari í Svíþjóð. Häcken þurfti að sætta sig við silfrið í deildinni á síðustu leiktíð og núna í bikarnum; mjög svekkjandi fyrir þær.

Agla María Albertsdóttir var ónotaður varamaður hjá Häcken í dag og Diljá Ýr Zomers var ekki í hóp.

Það var einnig bikarúrslitaleikur hjá körlunum og þar var það Malmö sem hafði betur gegn Hammarby í leik sem fór alla leið í vítaspyrnukeppni.

Milos Milojevic er þjálfari Malmö og er á sínu fyrsta tímabili. Hann hefur ekki farið stórkostlega af stað í deildinni, en gat leyft sér að brosa í dag eftir sigur á sínum gömlu lærisveinum í Hammarby í vítaspyrnukeppni. Jón Guðni Fjóluson er leikmaður Hammarby en hann er frá vegna meiðsla þessa stundina.

Þetta er fyrsti titillinn sem Milos vinnur hjá Malmö. Hann er auðvitað fyrrum þjálfari Breiðabliks og Víkings, og er íslenskur ríkisborgari.

Í Danmörku fór úrslitaleikur karla einnig í vítaspyrnukeppni. Það var Íslendingaslagur þar sem Midtjylland hafði betur gegn OB. Aron Elís Þrándarson lék ekki með OB í leiknum og var markvörðurinn Elías Rafn Ólafsson ekki með Midtjylland vegna meiðsla, en Elías er auðvitað hluti af liði Midtjylland og er því danskur bikarmeistari í fyrsta sinn.

Jónatan Ingi skoraði í sigri
Í norsku 1. deildinni var Jónatan Ingi Jónsson á skotskónum er Sogndal - sem er mikið Íslendingafélag - með sigur af hólmi gegn Stjørdals-Blink á útivelli, 1-3.

Jónatan gerði þriðja mark Sogndal snemma í síðari hálfleik. Valdimar Þór Ingimundarson var einnig í byrjunarliði Sogndal en Hörður Ingi Gunnarsson lék ekki með.

Bjarni Mark Antonsson lék um hálftíma í 2-2 jafntefli Start gegn Raufoss í sömu deild. Arnar Þór Guðjónsson spilaði með Raufoss í leiknum.

Start er í þriðja sæti, Sogndal er í sjötta sæti og Raufoss er í tólfta sætinu.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner