þri 26. júní 2018 21:42
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Alfreð vildi ekki fara út af - „Tilfinningin að ég myndi skora"
Icelandair
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alfreð í baráttu í leiknum.
Alfreð í baráttu í leiknum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alfreð Finnbogason, sóknarmaður Íslands, var svekktur þegar hann mætti í viðtal til íslenskra blaðamanna eftir tapið gegn Króatíu á HM í kvöld. Ísland eru leik á mótinu eftir tapið. „Mikið svekkelsi," sagði Alfreð.

„Markmiðið sem við settum fyrir leikinn var að við gætum gengið stoltir frá borði og við getum það svo sannarlega."

Alfreð segist aldrei hafa spilað landsleik eins og þennan í kvöld.

„Ég hef aldrei spilað landsleik þar sem við höfum skapað eins mörg færi og fengið eins mörg tækifæri til þess að fá færi. Því miður nýttum við það ekki betur. Þetta er munurinn á því að spila á hæsta stigi, við verðum að taka augnablikin þar sem við erum betri og nýta þau betur. Svo var okkur refsað í lokin þegar við hentum öllum fram."

Alfreð fékk gott færi undir lok fyrri hálfleiks en skaut fram hjá markinu.

„Ég ætlaði að troða honum inn í nærhornið. Ég veit hvort ég hafði aðeins meiri tíma, ég verð að sjá það aftur, en mér fannst tilvalið að taka hann í fyrsta. Það hefði verið skemmtilegt að skora."

„Ekki alveg tilbúinn að samþykkja það"
Hvernig var stemningin í klefanum eftir leikinn í kvöld? „Í fimm mínútur voru menn svekktir en svo kom Heimir og hélt stutta ræðu, talaði um að við ættum að vera gríðarlega stoltir af okkar frammistöðu hérna. Yfir allt eigum við einn slæman hálfleik, seinni hálfleikinn á móti Nígeríu. Restin fannst mér á okkar pari og jafnvel yfir pari. Við klöppuðum fyrir okkur og ákváðum það að fagna þessum góða árangri sem við höfum náð."

„Það er ekki alveg búið að tikka inn að þetta sé bara búið, maður er ekki alveg tilbúinn að samþykkja það. Okkur langaði að vera lengur, við erum ekki tilbúnir að fara heim. En þetta var ógeðslega erfiður riðill og réðst á lokamínútunum, það var ekkert gefið. Að hafa verið í séns á síðustu fimm mínútunum, að skora eitt mark og þá hefðum við verið áfram - það sýnir hversu langt við erum komnir."

Alfreð var tekinn af velli þegar nokkrar mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Hann var ekki sáttur með það.

„Ég vildi vera áfram inn á. Ég hafði það á tilfinningunni að ég myndi skora og langaði að vera áfram inn á en þjálfarinn tók þessa ákvörðun. Ég hefði klárlega verið til í að vera inn á áfram. Það er ekkert við því að segja," sagði Alfreð.

„Ef ég á að vera hreinskilinn þá var ég brjálaður að vera tekinn af velli en pólitíska svarið er það að ég virði ákvörðun þjálfarans. Ég hafði alltaf trú á því að myndi skora en ég er ekki að fara að henda einhverjum öxum á menn í kvöld. Við erum stoltir af því sem við erum búnir að gera."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner