Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   þri 26. júní 2018 20:35
Magnús Már Einarsson
Heimir ákveður sig eftir 1-2 vikur: Yrði erfitt að hætta
Icelandair
Heimir Hallgrímsson á hliðarlínunni í kvöld.
Heimir Hallgrímsson á hliðarlínunni í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Er Heimir að kveðja?
Er Heimir að kveðja?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Heimir Hallgrímsson ætlar að gefa sér eina til tvær vikur áður en hann ákveður hvort hann muni halda áfram með íslenska landsliðið eða ekki. Samningur Heimis er að renna út og hann ætlar að skoða sín mál nú þegar þátttöku Íslands er lokið á HM.

„Við þurfum að setjast niður og melta hvað er næsta skref. Bæði KSÍ og ég. Ég held að við getum að minnsta kosti gengið stoltir frá þessu Heimsmeistaramóti. Við hefðum viljað gera betur í einu hálfleik á þessu móti en það er kannski eðlilegt að það gangi ekki allt upp hjá manni," sagði Heimir á fréttamannafundi í dag.

„Ég ætla að gefa mér 1-2 vikur. Ég þarf að taka smá afslöppun og hugsa um þetta. Ég ætla að setjast niður með KSÍ eftir viku til tíu daga. Ég ætla að tala við fjölskylduna fyrst. Þetta er fínn tímapunktur til að horfa til baka og til framtíðar. Hvað er búið að gera vel og hvað má gera betur. Við erum búnir að undirbúa næstu keppni og það er ekkert sem kemur okkur á óvart. Við erum búnir að njósna um Sviss og Belgíu sem við mætum í Þjóðadeildinni."

„Ég er í besta starfi í heimi."
Heimir var spurður að því hversu erfitt það yrði að hætta sem landsliðsþjálfari Íslands ef ákvörðun hans verður sú.

„Ég vil ekki fara út í þetta," svaraði Heimir fyrst. „Ég er svo stoltur í dag, ekki bara af strákunum heldur líka af samstarsfmönnum. Þjálfarateyminu og öllu starfsliðinu hjá KSÍ. Ég er í besta starfi í heimi. Ég er með ótrúlega gott fólk í kringum mig. Við erum í mögnuðu sambandi við stuðningsmennina okkar og ég ætla að gefa ykkur fjölmiðlum hrós fyrir þessi sjö ár sem ég hef starfað hjá KSÍ. Það hefur verið meiri nánd og meiri heiðarleiki á milli landsliðsins og leikmannanna."

„Ég, Helgi (Kolviðsson) og Gummi (Hreiðarsson) erum á ákveðinni vegferð með þetta lið og þetta var risaskref í þroska þessa landsliðs. Við erum á leið í efstu deild í Þjóðaheild og það er önnur viðurkenning sem þessir strákar hafa unnið síðustu tvö ár. Eftir það förum við í undankeppni EM þar sem við verðum aldrei neðar en í öðrum styrkleikaflokki."

„Það er að koma verðlaunafé inn í KSÍ og það er allt í blóma. Það yrði mjög erfitt að skilja við þetta landslið og ekki síst fólkið sem er að starfa með okkur."


Heimir var ráðinn aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins árið 2011. Árið 2013 var hann gerður að aðaþjálfara ásamt Lars Lagerback og eftir EM 2016 tók hann einn við liðinu.

Guðni Bergsson formaður KSÍ, sagði fyrr í mánuðinum að hann sé tilbúinn með plan B ef Heimir ákveður að hætta.

Sjá einnig:
Guðni bjartsýnn á að Heimir framlengi - Plan B Klárt (10. júní)
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner