þri 26. júní 2018 22:25
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Kári Árna: Mín stoltustu augnablik á lífsleiðinni
Kári mögulega hættur með landsliðinu
Icelandair
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kári og Raggi. Besta miðvarðarpar Íslandssögunnar.
Kári og Raggi. Besta miðvarðarpar Íslandssögunnar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Líklegt er að varnarjaxlinn Kári Árnason sé hættur með íslenska landsliðinu í fótbolta.

Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði greindi frá því á Instagram eftir leikinn að Kári væri hættur í landsliðinu, en aðspurður út í það eftir leik sló hinn 35 ára gamli Kári á létta strengi.

„Er hann búinn að greina frá því? Já, það er gott að hann tekur ákvörðun um það," sagði Kári og hló.

„Ég get ekki sagt nei við landsliðinu. Mín stoltustu augnablik á lífsleiðinni hafa komið með landsliðinu. Ég er mjög stoltur af því að hafa verið partur af þessu liði og stoltur af þessum strákum."

Hafði Kári hugsað það fyrir HM að þetta gætu verið síðustu landsleikir hans? „Auðvitað var ég búinn að leiða hugann þangað. Ég ætla ekki að koma með stórar yfirlýsingar um að ég sé hættur með landsliðinu en það lítur svolítið þannig út," sagði Kári sem útilokar þó ekkert.

„Okkar mesta legend (Eiður Smári Guðjohnsen) brenndi sig svolítið á því að segja að hann væri hættur og síðan kom hann aftur. Það að fara á HM með liðinu var draumur fyrir okkur alla. Stoltustu augnablik mín í fótboltanum og lífinu hafa komið með þessu liði. Ég er gríðarlega stoltur af því að hafa verið partur af þessu. Ég er stoltur af því að hafa átt þátt í því að við komumst á EM og HM. Ég er mjög stoltur af liðinu í dag líka. Við vorum flottir í dag og við verðskulduðum meira úr þessum leik."

Ekki neitt pirraður
Sverrir Ingi Ingason kom inn í liðið fyrir Kára í dag. Kári segist ekki hafa verið pirraður yfir þeirri ákvörðun.

„Ekki neitt. Ég skil Heimi fullkomlega. Sverrir stóð sig frábærlega í dag. Þetta er óumflýjanlegur partur af fótbolta, að þurfa að stíga til hliðar og yngri og ferskari menn koma inn. Ég er stoltur af því sem ég gerði í undankeppninni og i þessum leikjum gegn Nígeríu og Argentínu þó að Nígeríuleikurinn hefði mátt fara betur."

„Það gleymdist svolítið að nefna þetta vítaspyrnukall sem við eigum gegn Argentínu. Ég veit ekki hvort það sé of seint að fara í VAR núna. Það má reyna það. Maður hefur séð víti gefin fyrir minna. Með sigri þar hefðum við verið í flottum málum."

Hefur þú heyrt af áhuga erlendis frá? „Ég hef heyrt af einhverjum áhuga en ekkert staðfest," sagði Kári sem samdi við uppeldisfélag sitt Víking R. í vor. Hann gæti spilað sinn fyrsta leik í Pepsi-deildinni á næstu dögum ef allt fer að óskum fyrir Víkinga.

Sjá einnig:
Sölvi Geir nefnir eitt jákvætt við tapið gegn Króatíu
Athugasemdir
banner
banner
banner