Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   sun 26. júlí 2020 15:54
Ívan Guðjón Baldursson
Lengjudeildin: Keflavík á toppinn - Fyrsta stig Magna
Lengjudeildin
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Tveimur fyrstu leikjum dagsins í Lengjudeild karla er lokið. Keflavík tók á móti Vestra í hörkuleik þar sem Kian Williams kom heimamönnum yfir strax á fimmtu mínútu.

Kian skoraði með glæsilegu skoti af 20 metra færi sem fór í slánna og inn, algjörlega óverjandi fyrir Robert Blakala á milli stanga gestanna.

Vestri var betri í fyrri hálfleik en fékk ekki mikið af færum og leiddu Keflvíkingar í leikhlé.

Vestri stjórnaði leiknum áfram í upphafi síðari hálfleiks og skoraði Milos Ivankovic verðskuldað jöfnunarmark eftir hornspyrnu á 56. mínútu.

Heimamenn voru hins vegar eldfljótir að bregðast við þar sem vörn Vestra virtist sofna eftir jöfnunarmarkið.

Joey Gibbs kom Keflavík yfir mínútu eftir jöfnunarmarkið og tvöfaldaði Kian forystuna með sínu öðru marki einni mínútu síðar. Mörkin voru svipuð þar sem Keflvíkingar fengu að hlaupa með boltann upp kantana og gefa fyrir.

Á 71. mínútu gerði Joey endanlega út um leikinn eftir fyrirgjöf af kantinum. Varnarleikur Vestra í molum og niðurstaðan 4-1 sigur Keflavíkur sem er á toppi Lengjudeildarinnar, einu stigi fyrir ofan Leikni R. sem á leik til góða. Vestri er áfram með ellefu stig um miðja deild.

Keflavík 4 - 1 Vestri
1-0 Kian Williams ('5)
1-1 Milos Ivankovic ('56)
2-1 Joey Gibbs ('57)
3-1 Kian Williams ('58)
4-1 Joey Gibbs ('71)

Grindavík heimsótti þá stigalaust botnlið Magna og einkenndist fyrri hálfleikur af mikilli baráttu.

Josip Zeba gerði eina markið fyrir leikhlé eftir atgang í vítateig Magna í kjölfar hornspyrnu. Guðmundur Magnússon átti stoðsendinguna.

Guðmundur tvöfaldaði forystu Grindvíkinga í upphafi síðari hálfleiks, aftur í kjölfar hornspyrnu.

Magnamenn voru ekki á því að gefast upp og minnkaði Costelus Lautaru muninn á 64. mínútu. Sjö mínútum síðar var Tómas Veigar Eiríksson búinn að jafna með marki eftir hornspyrnu.

Þetta var frábær kafli fyrir heimamenn sem komust nálægt því að fullkomna endurkomuna er Sindri Björnsson braut af sér sem aftasti varnarmaður og fékk beint rautt spjald fyrir.

Magni setti mikla pressu á tíu leikmenn Grindavíkur á lokakaflanum en það voru gestirnir sem náðu að pota inn næsta marki úr skyndisókn.

Gummi Magg lagði þar upp sitt annað mark með góðri sendingu frá vinstri kanti. Oddur Ingi Bjarnason lenti ekki í vandræðum með að klára færið.

Heimamenn reyndu hvað þeir gátu til að jafna og það tókst á síðustu sekúndum leiksins, þegar Rúnar Þór Brynjarsson jafnaði með marki eftir hornspyrnu.

Grindavík er með ellefu stig eftir átta umferðir, sex stigum eftir toppliði Keflavíkur. Magni nældi í sitt fyrsta stig á Íslandsmótinu.

Magni 3 - 3 Grindavík
0-1 Josip Zeba ('37)
0-2 Guðmundur Magnússon ('51)
1-2 Costelus Lautaru ('64)
2-2 Tómas Veigar Eiríksson ('71)
2-3 Oddur Ingi Bjarnason ('88)
3-3 Rúnar Þór Brynjarsson ('96)
Rautt spjald: Sindri Björnsson, Grindavík ('76)

Það getur tekið tíma fyrir stöðutöfluna að uppfærast.
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner