Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 26. júlí 2020 23:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Mawejje segist hafa gert stór mistök með að koma aftur til Íslands 2014
Tonny Mawejje í leik með ÍBV. Hann varð fyrir kynþáttafordómum í leik Keflavík 2013.
Tonny Mawejje í leik með ÍBV. Hann varð fyrir kynþáttafordómum í leik Keflavík 2013.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tonny Mawejje, fyrrum leikmaður ÍBV, Þróttar og Vals, talar um það í viðtali í heimalandi sínu, Úganda, þegar hann varð fyrir kynþáttafordómum í leik hér á landi.

Hann ræðir um það í samtali við Daily Monitor í Úganda. Vefsíðan 433 vakti athygli á viðtalinu.

Hinn 33 ára gamli Mawejje spilaði á Íslandi með stuttum hléum á árunum 2009 til 2017. Eftir tvö ár hjá Tirana í Albaníu spilaði Tonny með Al-Arabi í Kúveit í fyrra áður en hann gekk til liðs við Police í Úganda á dögunum.

Árið 2013 varð hann fyrir kynþáttafordómum í leik í Keflavík. Virtist sem kallað væri "út af með helvítis negrann" þegar Tonny tæklaði Arnór Ingva Traustason, þáverandi leikmann Keflavíkur. Keflavík var sektað um 30 þúsund krónur fyrir það.

„Ég var ekki með tungumálið á hreinu og ég hundsaði það því. Síðar komst ég að því hvað sagt hefði verið," sagði Mawejje.

Hann segist hafa gert mikil mistök árið 2014 þegar hann bað um lán frá Haugesund í Noregi til Íslands. Þá gekk hann í raðir Vals og ári síðar samdi hann við Þrótt.

„Ef ég hefði beðið lengur þá hefði ég kannski fengið tækifæri og eitthvað af félögunum í stóru deildunum hefði tekið eftir mér. Þetta eru ein af stóru mistökunum á ferli mínum," segir miðjumaðurinn sem telur sig hafa getað fetað í fótspor leikmanna eins og McDonald Mariga og Victor Wanyama.

Sjá einnig:
Tonny Mawejje vill annað hugarfar - Æft í hvaða veðri sem er á Íslandi
Athugasemdir
banner
banner
banner