sun 26. júlí 2020 17:15
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Villa væri á leið niður ef markið augljósa hefði verið dæmt
Reyndist dýrkeypt fyrir Bournemouth.
Reyndist dýrkeypt fyrir Bournemouth.
Mynd: Getty Images
Ensku úrvalsdeildinni var að ljúka. Manchester United og Chelsea náðu Meistaradeildarsæti og úr deildinni féllu Bournemouth og Watford, ásamt Norwich.

Aston Villa hélt sér uppi með einu stigi meira en Bournemouth og Watford.

Villa mun leika í ensku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð eftir að hafa verið mjög lengi í fallsæti á tímabilinu, en umdeilt atvik í leik gegn Sheffield United spilar mjög mikið inn í þegar upp úr pokanum er talið.

Í fyrsta leik eftir endurkomu ensku úrvalsdeildarinnar var niðurstaðan markalaust jafntefli í leik Sheffield United og Aston Villa. United hefði þó átt að vinna þann leik 1-0. Oliver Norwood, miðjumaður Sheffield United, átti fyrirgjöf sem fór yfir Orjan Nyland og aðra leikmenn Villa og var það nokkuð augljóst að boltinn hafnaði í netinu og sýndu myndskeið og myndir af atvikinu það.

Michael Oliver, dómari leiksins, dæmdi þó ekki mark, enda fékk hann ekki skilaboð um að boltinn hafi farið yfir línuna. Marklínutæknin klikkaði í fyrsta sinn í yfir 9000 leikjum og Villa fékk stig.

Ef liðið hefði ekki fengið það stig þá væri Villa á leið niður í Championship-deildina og Bournemouth væri að halda fara inn í sjötta tímabil í röð í ensku úrvalsdeildinni.


Athugasemdir
banner
banner
banner