Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   þri 26. júlí 2022 20:30
Brynjar Ingi Erluson
Lengjudeildin: Fylkismenn ætla sér aftur upp
Mathias Laursen skoraði bæði mörk Fylkis. Hér fagnar hann fyrra markinu.
Mathias Laursen skoraði bæði mörk Fylkis. Hér fagnar hann fyrra markinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fjölnir 0 - 2 Fylkir
0-1 Mathias Laursen Christensen ('40 )
0-2 Mathias Laursen Christensen ('51 )
Lestu um leikinn

Danski framherjinn Mathias Laursen sá til þess að Fylkir færi heim með öll stigin er liðið lagði Fjölni, 2-0, á Extra-vellinum í Lengjudeild karla í kvöld.

Fjölnismenn fengu færin til að komast yfir í byrjun leiks. Lúkas Logi Heimisson keyrði framhjá nokkrum leikmönnum Fylkis áður en hann lét vaða en boltinn rétt framhjá markinu.

Andartaki síðar slapp Hákon Ingi Jónsson einn í gegn og kom sér í dauðafæri en aftur fór skotið framhjá.

Fylkir vann sig inn í leikinn og var liðið nálægt því að skora eftir hornspyrnu á 21. mínútu sem Sigurjón Daði Harðarson, markvörður Fjölnis, var í brasi með. Fylkismenn reyndu að pota boltanum inn en heimamenn björguðu á línu. Heimamenn stálheppnir.

Þegar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleiknum kom Mathias Laursen liði Fylkis yfir með glæsilegu skoti upp við stöng og þar við sat í hálfleik.

Hann tvöfaldaði síðan forystuna í upphafi síðari hálfleiks. Fylkismenn áttu skot sem Sigurjón varði út á Laursen sem átti ekki í vandræðum með að skora. Leikmenn Fjölnis voru ekki sáttir með að markið hafi fengið að standa þar sem Laursen virtist fyrir innan en ekkert dæmt.

Laursen gat fullkomnað þrennu sína stuttu síðar en skot hans hafnaði í þverslánni.

Þegar tuttugu mínútur voru eftir af leiknum átti Hans Viktor Guðmundsson skot í stöng eftir hornspyrnu Fjölnismanna, en inn vildi boltinn ekki.

Lokatölur 2-0 fyrir Fylki sem er nú í toppsætinu með 30 stig, tveimur stigum meira en HK sem er í öðru sæti. Fjölnir er á meðan í þriðja sæti deildarinnar með 23 stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner