Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   lau 26. desember 2020 20:30
Ívan Guðjón Baldursson
Arteta: Höfum brugðist stuðningsmönnum trekk í trekk
Mynd: Getty Images
Það virtist þungu fargi vera létt af brjósti Mikel Arteta þegar hann ræddi við fréttamenn eftir 3-1 sigur Arsenal gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni fyrr í kvöld.

Arsenal hefur farið hrikalega illa af stað í ár og er aðeins með 17 stig eftir 15 umferðir sem stendur. Arteta segist ekki vera sérlega ósáttur með spilamennskuna á tímabilinu, einungis úrslitin.

„Við erum mjög vonsviknir með öll síðustu úrslit. Við erum ekki sérlega ósáttir með frammistöðurnar en úrslitin hafa verið hrikaleg. Leikmenn þjáðust, stuðningsmenn þjáðust. Þessi sigur er gífurlega mikilvægur fyrir sjálfstraustið," sagði Arteta.

„Þetta gerist ekki betra í enska boltanum, að vinna London slag gegn Chelsea á öðrum degi jóla. Vonandi höldum við áfram að vinna leiki því ég veit að strákarnir geta spilað svona vel í hverri viku. Við vitum hversu sterkt lið Chelsea er með en í dag vorum við betri stærsta hluta leiksins.

„Við erum búnir að vera svo óheppnir með meiðsli og Covid og svo endum við yfirleitt á því að spila leiki manni færri. Maður fer að hugsa með sér hvað í ósköpunum þarf eiginlega að gerast til að okkur takist að sigra fótboltaleik."


Starf Arteta var talið vera í hættu eftir slæmt gengi undanfarna mánuði og verður áhugavert að fylgjast með úrslitum næstu leikja sem gætu ráðið framtíð spænska þjálfarans.

„Það er gott að geta gefið stuðningsmönnum ástæðu til að brosa yfir hátíðarnar. Við spiluðum virkilega vel og þessi frammistaða mun fylla hópinn af sjálfstrausti. Við höfum brugðist stuðningsmönnum trekk í trekk og nú er kominn tími til að snúa genginu við."
Athugasemdir
banner
banner