lau 27. mars 2021 10:06
Magnús Már Einarsson
Aron: Við þurfum að stíga upp
Icelandair
Aron Einar Gunnarsson í leiknum gegn Þýskalandi.
Aron Einar Gunnarsson í leiknum gegn Þýskalandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland mætir Armeníu í öðrum leik í undankeppni HM klukkan 16:00 á morgun. Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði, var spurður að því á fréttamannafundi í dag hver sé lykillinn til að ná sigri þar?

„Lykillinn að sigri er að við þurfum að spila okkar leik. Við þurfum að vera skipulagðir og þolinmóðir í vörn og sókn," sagði Aron.

„Við þurfum að halda boltanum betur og færa boltann hratt. Þetta er skipulagt lið sem við erum að fara að spila við og þeir eru með gott sjálfstraust eftir að hafa unnið fjóra af síðustu sex leikjum. Við þurfum að spila okkar leik og gera það almennilega. Við sköpum okkur alltaf færi og við þurfum að nýta þau."

Eftir að hafa byrjað margar undankeppnir á góðum úrslitum þá byrjaði Ísland undankeppni HM á tapi gegn Þýskalandi í fyrradag. Hefur Aron áhyggjur af því?

„Nei, nei. Við vitum að við þurfum að byrja undankeppni sterkt til að fá sjálfstraust inn í hópinn. Úrslitin voru klárlega ekki góð á móti Þýskalandi en við vissum að það yrði virkilega erfiður leikur. Það getur hver sem er tapað gegn Þjóðverjum á útivelli. Við þurfum að stíga upp. Við þurfum að búa til momentum sem við tökum áfram inn í undankeppnina og það er kjörið tækifæri til að gera það á morgun."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner