Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
   lau 27. mars 2021 10:26
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Fólk verður að gera sér grein fyrir því að þetta lið er mjög gott"
Icelandair
Arnar á æfingu Íslands í gær.
Arnar á æfingu Íslands í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mkhitaryan, helsta stjarna Armeníu er ekki með.
Mkhitaryan, helsta stjarna Armeníu er ekki með.
Mynd: Roma
Ísland mætir á morgun Armeníu í öðrum leik sínum í undankeppni HM 2022.

Ísland byrjaði undankeppnina á 3-0 tapi gegn Þýskalandi á meðan Armenía vann nauman sigur á Liechtenstein, 1-0.

Bæði lið verða án síns besta manns; Armenía án Henrikh Mkhitaryan og Ísland án Gylfa Þórs Sigurðssonar.

Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari, sat fyrir svörum á blaðamannafundi í dag og hann vanmetur Armeníu svo sannarlega ekki.

„Við höfum að sjálfsögðu horft á leiki þeirra frá Þjóðadeildinni síðasta haust og við erum búnir að horfa á leikinn sem þeir spiluðu við Liechtenstein í fyrradag. Þeir eru yfirleitt að spila 4-4-2, það er mikil ákefð í liðinu, þeir eru góðir að setja pressu á boltann. Það er mikil orka í þessu liði," sagði Arnar.

„Ég held að fólk verði að gera sér grein fyrir því að þetta lið er mjög gott og hefur náð góðum árangri undanfarið, sérstaklega á heimavelli. Leikurinn á móti Liechtenstein sýndi að þeir eru með gott lið. Þeir voru með yfirburði frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Þeir skoruðu seint en það var bara eitt lið á vellinum í þeim leik."

„Þetta er mjög gott lið og vel skipulagt. Þeir eru með þjálfara frá Spáni sem hefur náð að búa til 4-4-2 kerfi sem virkar fyrir þá. Þeir eru mjög duglegir, það er mikil hlaupageta í þessu liði og helsta vopn þeirra er að þeir eru lið og þeir eru vel skipulagðir. Það er ekki spurning að þetta er gott lið," sagði Arnar.

Viðureignir Íslands og Armeníu
Ísland og Armenía hafa aðeins mæst þrisvar sinnum í A-landsliðum karla, síðast árið 2008 á æfingamóti á Möltu. Þann leik vann Ísland 2-0 og skoruðu Gunnar Heiðar Þorvaldsson og Tryggvi Guðmundsson mörk Íslands.

Hinir tveir leikirnir voru í undankeppni Evrópumótsins 2000. Markalaust jafntefli var niðurstaðan í Armeníu 1998 og nokkrum mánuðum síðar hafði Ísland betur á Laugardalsvelli, 2-0. Ríkharður Daðason og Rúnar Kristinsson gerðu mörk Íslands í þeim leik.
Athugasemdir
banner
banner
banner