Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   lau 27. mars 2021 14:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Þjálfari Armeníu stýrt nokkrum stórum félögum á Spáni
Spilar 4-4-2 og náð flottum árangri með Armeníu
Icelandair
Joaquin Caparros.
Joaquin Caparros.
Mynd: Getty Images
Armenía og Ísland eigast við á morgun í gríðarlega mikilvægum leik í undankeppni HM.

Þetta er leikur sem Ísland þarf að vinna, það þarf ekkert að fara í felur með það.

Armenar hafa hins vegar átt góðu gengi að fagna að undanförnu eins og Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari Íslands, kom inn á þegar blaðamannafundur íslenska liðsins fór fram í morgun.

„Ég held að fólk verði að gera sér grein fyrir því að þetta lið er mjög gott og hefur náð góðum árangri undanfarið, sérstaklega á heimavelli. Leikurinn á móti Liechtenstein sýndi að þeir eru með gott lið. Þeir voru með yfirburði frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Þeir skoruðu seint en það var bara eitt lið á vellinum í þeim leik," sagði Arnar Þór.

Armenía hefur náð mjög góðum árangri að undanförnu og ekki tapað í síðustu leikjum sínum. Það voru leikir gegn Eistlandi, Georgíu, Norður-Makedóníu og Liechtenstein. Liðið mætti Eistlandi og Georgíu tvisvar í Þjóðadeildinni. Í fjórum af þessum leikjum bar Armenía sigur úr býtum og tveir af þeim enduðu í jafntefli. Armenía vann sinn riðil í Þjóðadeildinni og mun spila í B-deild hennar næst þegar hún fer fram, ásamt Íslandi. Andstæðingarnir kannski ekki alveg þeir sterkustu í heimi, en samt sem áður virkilega flott úrslit fyrir Armeníu.

Armenía er með mjög færan þjálfara, Spánverjann Joaquín Caparrós. Hann er 65 ára gamall og hefur komið víða við. Hann hefur meðal annars þjálfað Athletic Bilbao, Sevilla og Villarreal á í heimalandinu. Hann tók við Armeníu í mars á síðasta ári og mun þjálfa liðið út þessa undankeppni. Liðið hefur aðeins tapað einum leik undir hans stjórn en sá tapleikur var gegn Norður-Makedóníu.

„Þetta er mjög gott lið og vel skipulagt. Þeir eru með þjálfara frá Spáni sem hefur náð að búa til 4-4-2 kerfi sem virkar fyrir þá. Þeir eru mjög duglegir, það er mikil hlaupageta í þessu liði og helsta vopn þeirra er að þeir eru lið og þeir eru vel skipulagðir. Það er ekki spurning að þetta er gott lið," sagði landsliðsþjálfari Íslands á blaðamannafundi í dag.

Lið Armeníu er svo sannarlega sýnd veiði en ekki gefin fyrir Ísland.

Sjá einnig:
Vantar langbesta mann Armeníu - Þessir eru mikilvægastir núna
Athugasemdir
banner
banner
banner