banner
   mán 27. apríl 2020 13:30
Hafliði Breiðfjörð
Miðjan
Alex Ferguson vildi kaupa Gumma Torfa eftir þrennu á Old Trafford
Guðmundur í leik með St. Mirren.
Guðmundur í leik með St. Mirren.
Mynd: Getty Images
Guðmundur Torfason er gestur vikunnar í podcastþættinum Miðjan hér á Fótbolta.net. Hann ræðir þar feril sinn og meðal annars hápunkt ferilsins þegar hann heillaði Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóra Manchester United upp úr skónum.

Hlustaðu á þáttinn í spilaranum að neðan eða finndu hann á öllum helstu podcastveitum undir Fótbolti.net.

Guðmundur lék þá með skoska liðinu St. Mirren þar sem hann var vanur að skora hvert glæsilmarkið á fætur öðru. Á undirbúningstímabilinu í ágúst 1990 fór liðið á Old Trafford og gjörsigraði Manchester United 5-1.

„Við hittum á einhvern ótrúlegan leik. Við vorum með ágætlega mannað lið og landsliðsmenn í nokkrum stöðum. Þar á meðal Paul Lambert á miðjunni sem stjórnaði spilinu í þessum leik. Við unnum leikinn 5-1 sem er mjög skrítið," sagði Guðmundur í viðtalinu en Ryan Giggs var þarna ungur drengur að spila með Man Utd liðinu og menn eins og Bryan Robson, Gary Pallister og Neil Webb.

Guðmundur skoraði hina fullkomnu þrennu í leiknum en mörkin voru kannski fjögur eftir allt saman?

„Það var eitt mark úr aukaspyrnu með hægri, annað með vinstri fyrir utan teig og svo með skalla," sagði Guðmundur. „Þetta var mjög gaman, skemmtilegur dagur og skemmtileg ferð," hélt hann áfram en aðspurður hvort hann hafi ekki samt skorað fjögur mörk í leiknum svaraði hann?

„Þetta var sjálfsmark, ég bombaði fyrir og boltinn fór af hnénu í Neil Webb og í markið. Við látum þrjú duga."

Sir Alex fylgdist með Guðmundi eftir þetta og mætti á leiki hjá St. Mirren í kjölfarið. Í fjölmiðlum var talað um að hann hafi boðið 1,5 milljónir punda í hann.

„Það var eitthvað fjallað um það og ég ætla ekki að segja neitt um það. Á þessum tíma var ég í mínu besta formi og hef aldrei komist í eins gott form og á þeim tíma. Það var einhver áhugi frá einhverjum liðum en svo byrjar mótið í Skotlandi og þá varð ég fyrir meiðslum og þetta dó. Hann var búinn að koma á nokkra leiki og stjórnarmennnirnir sögðu mér að það hafi verið viðræður og ég veit ekki hversu langt þær voru komnar."

Guðmundur reif krossband í kjölfarið og ekkert varð úr því að hann færi. En ef þetta hefði komið á hans borð, hefði hann sagt já? „Að sjálfsögðu, það hefði ekki verið spurning."
Miðjan - Gummi Torfa valdi fótboltaferil fram yfir tónlistina
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner