Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mán 27. apríl 2020 14:59
Elvar Geir Magnússon
Ekki komið tilboð í Tryggva - ÍA miðar við að halda sínum leikmönnum
Tryggvi Hrafn Haraldsson.
Tryggvi Hrafn Haraldsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ekkert tilboð hefur borist ÍA í sóknarmanninn Tryggva Hrafn Haraldsson. Þetta staðfesti Geir Þorsteinsson, framkvæmdastjóri ÍA, í samtali við Fótbolta.net.

„Það hefur ekkert tilboð komið. Tryggvi er einn af okkar lykilmönnum fyrir sumarið," segir Geir.

Í hlaðvarpsþættinum Dr. Football er Tryggvi sagður á óskalista Breiðabliks. Blikar eru sagðir íhuga að gera tilboð í hann.

Geir segir að það standi ekki til að selja Tryggva frekar en aðra núverandi leikmenn liðsins.

„Við reiknum með að halda okkar leikmannahóp. Þannig er staðan í dag."

Mikið hefur verið rætt um slæma fjárhagsstöðu ÍA en Geir segir að ekki sé stefnan á að selja leikmenn þrátt fyrir hana.

„Ekki á þessari stundu. Við miðum við að hafa þann hóp sem við höfum í meistaraflokki í sumar. Það er okkar viðmið."

Tryggvi tók þátt í janúarverkefni íslenska landsliðsins og lék gegn El Salvador sinn fjórða landsleik.

Hann skoraði þrennu í úrslitaleik Fótbolta.net mótsins í lok janúar en ÍA vann þá Breiðablik 5-2. Þegar liðin mættust svo í Lengjubikarnum mánuði síðar unnu Blikar 7-1. Tryggvi skoraði eina mark ÍA í þeim leik.

Í vetur var fjallað um áhuga KR á Tryggva en Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, sagði í síðustu viku að ekki væri stefnan að bæta við leikmannahópinn hjá Íslandsmeisturunum.
Athugasemdir
banner
banner