mán 27. apríl 2020 10:01
Elvar Geir Magnússon
Fundað um að loka leikmenn inni á hótelum til að klára ensku deildina
Hótel Football er við hlið Old Trafford.
Hótel Football er við hlið Old Trafford.
Mynd: Getty Images
Bjartsýnin á að ná að klára tímabilið í ensku úrvalsdeildinni hefur aukist síðustu daga en Times segir að áætlun sé um að klára mótið 8. júní til 27. júlí.

Verið sé að vinna í þessari áætlun sem ber vinnuheitið "Project Restart" og verður betur kynnt fyrir félögunum á næstu dögum.

Mirror segir að félögin séu að skoða ýmsar hugmyndir en líklegt sé að hóteláætlunin verði notuð en þá eru leikmenn einangraðir á hótelum í allt að sex vikur á meðan leikirnir eru kláraðir.

Heimaliðið fær þá annan helming hótelsins en útiliðið fær hinn. Þegar útiliðið yfirgefur svo hótelið er sá hluti djúphreinsaður.

Stefnt er að því að nota velli ensku úrvalsdeildarinnar í leiki en mögulegt er að nota æfingavelli líka.

Flest lið deildarinnar eiga eftir að leika níu leiki í úrvalsdeildinni. Stefnt er að því að hefja skipulagðar æfingar í komandi mánuði en félögin bíða eftir frekari upplýsingum frá yfivöldum.

UEFA vill að deildirnar klárist fyrir miðjan ágúst svo pláss sé til að klára Meistaradeildina en þar er stefnt á úrslitaleik þann 29. ágúst.

Það er fundur hjá ensku úrvalsdeildinni á föstudaginn og vonast er til að yfirvöld verði búin að senda frá sér nánari upplýsingar og áætlanir fyrir þann fund. Ef "Project Restart" gengur eftir verður leikið nær daglega í ensku úrvalsdeildinni þegar boltinn byrjar aftur að rúlla.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner