Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
   mán 27. apríl 2020 15:15
Elvar Geir Magnússon
Jói Kalli: Æfum minna en verður vonandi hressandi og skemmtilegt
Jóhannes Karl Guðjónsson.
Jóhannes Karl Guðjónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Ingunn Hallgrímsdóttir
„Það er komin mikil tilhlökkun. Áhuginn og hvatinn fyrir því að komast aftur af stað hefur magnast upp," segir Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA.

Nú er vika þar til skipulagðar æfingar meistaraflokka mega fara aftur af stað en þó með takmörkunum til að byrja með.

Stefnan er að Pepsi Max-deild karla fari af stað í kringum 14. júní og er Jói Kalli spenntur fyrir mótinu. Leikið verður töluvert þéttar en venjan er.

„Það er mjög spennandi. Þessi drög að mótinu líta mjög vel út. Það er mikið af leikjum og það er mín skoðun að það sé bara skemmtilegt. Við fáum fullt af fótboltaleikjum. Maður er í þessu fyrir leikina. Þetta verður mikil törn og maður þarf að breyta æfingaálagi og annað, við æfum minna en vonandi verður þetta hressandi og skemmtilegt."

Hann er ánægður með að farið sé að birta til og hlakkar til að geta stýrt æfingum síns liðs á nýjan leik.

„Það verður frábært að geta farið að komast í bolta aftur. Menn hafa reynt að halda sér í formi og gert það eftir bestu getu en ekkert kemur í staðinn fyrir að vera í fótbolta og æfa með bolta. Gera það sem menn elska. Tíðin er núna þannig að það er vor í lofti og mikil tilhlökkun framundan," segir Jóhannes.

„Það kitlar fyrir mig sem þjálfara að vera aftur með liðinu mínu úti á velli. Það er líka komin mikil tilhlökkun í mína leikmenn að komast aftur af stað. Vonandi verður áfram hægt að halda þessu í skefjum en spila samt fótbolta. Fyrir okkur sem erum í þessum fótboltaheimi og fyrir stráka sem eru tilbúnir að leggja allt á sig til að vera góðir í fótbolta verður frábært að komast af stað."
Athugasemdir
banner
banner
banner