Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mán 27. apríl 2020 14:46
Elvar Geir Magnússon
KSÍ: Úrræði stjórnvalda þurfa að nýtast íþróttahreyfingunni
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Raggi Óla
Hér að neðan er áskorun frá stjórn KSÍ til stjórnvalda vegna áhrifa Covid-19 á íþróttastarfsemi í landinu. Áskorunin var samþykkt á fundi stjórnar KSÍ 22. apríl síðastliðinn.

„Gríðarlega mikilvægt er að þau úrræði sem að stjórnvöld bjóða rekstraraðilum og einstaklingum nýtist einnig íþróttahreyfingunni. Þessu er mjög ábótavant í þeim úrræðum stjórnvalda sem kynnt hafa verið til þessa," segir meðal annars í áskoruninni.

Tryggja þarf íþróttahreyfingunni viðspyrnu – Áskorun til stjórnvalda

- Stjórn KSÍ skorar á stjórnvöld vegna áhrifa Covid-19 á íþróttastarfsemi í landinu

- Gríðarlega mikilvægt er að þau úrræði sem að stjórnvöld bjóða rekstraraðilum og einstaklingum nýtist einnig íþróttahreyfingunni.

Búa þarf svo um hnúta að úrræði stjórnvalda sem ætlað er að létta undir með fyrirtækjum og einstaklingum vegna heimsfaraldurs Covid-19 nýtist einnig íþróttahreyfingunni í landinu. Ljóst er að óhjákvæmilegar sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda vegna faraldursins, sem leitt hefur til stöðvunar á allri íþróttastarfsemi, hafa komið mjög illa við knattspyrnu- og íþróttahreyfinguna í heild sinni. Áhrifin eru jafnt félagsleg sem fjárhagsleg.

Rétt er að minna á að íþróttahreyfingin hefur á liðnum áratugum lyft grettistaki hvað varðar holla íþróttaiðkun ungs fólks og fyllt þjóðina stolti yfir árangri afreksfólks á innlendum og erlendum vettvangi. Þennan árangur er mikilvægt að varðveita með öllum tiltækum ráðum og búa í haginn fyrir enn frekari sókn.

Brostnar forsendur knattspyrnuhreyfingarinnar þessa dagana er krefjandi verkefni sem við tökumst á við í sameiningu og reynum að leysa eftir bestu getu samfélaginu til heilla. Þegar faraldurinn braust út var knattspyrnuhreyfingin, með stórum hópi starfsmanna og sjálfboðaliða í stjórnum félaganna, í óða önn að undirbúa komandi keppnistímabil.

Knattspyrnuhreyfingin horfir til þess að aðgerðir ríkisstjórnar og sveitarfélaga létti þeim róðurinn þannig að lágmarka megi þann skaða sem þegar er orðinn. Því beinir stjórn KSÍ þeirri eindregnu áskorun til stjórnvalda að tryggja íþróttahreyfingunni öfluga viðspyrnu á komandi vikum og mánuðum.

Gríðarlega mikilvægt er að þau úrræði sem að stjórnvöld bjóða rekstraraðilum og einstaklingum nýtist einnig íþróttahreyfingunni. Þessu er mjög ábótavant í þeim úrræðum stjórnvalda sem kynnt hafa verið til þessa og úr því þarf nauðsynlega að bæta. Til dæmis getur íþróttahreyfingin ekki nýtt sér lokunarstyrki þrátt fyrir að starfsemi á hennar vegum hafi verið stöðvuð í þágu sóttvarna. Eins nýtast launaúrræði illa vegna fjölda hlutastarfa í hreyfingunni, en þau úrræði geta ekki nema um 30% starfsfólks knattspyrnuhreyfingarinnar nýtt sér.

Með betrumbótum á þessum úrræðum ásamt öðrum aðgerðum myndi rekstrarumhverfi íþróttafélaganna verða betra og félögin, sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni, geta frekar sinnt sínu mikilvæga samfélagslega hlutverki.

Stjórn KSÍ
Athugasemdir
banner
banner
banner