Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 27. maí 2021 20:32
Elvar Geir Magnússon
Áherslan ekki lögð á úrslitin - „Menn verða að þora að gera mistök"
Icelandair
Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari.
Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Leikið verður á AT&T Stadium, heimavelli NFL-liðsins Dallas Cowboys.
Leikið verður á AT&T Stadium, heimavelli NFL-liðsins Dallas Cowboys.
Mynd: Getty Images
Rúnar Alex Rúnarsson markvörður.
Rúnar Alex Rúnarsson markvörður.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenska landsliðið er komið til Texas í Bandaríkjunum þar sem leikinn verður vináttulandsleikur gegn Mexíkó á laugardagskvöld. Arnar Þór Viðarsson landsiðsþjálfari segir að allir leikmennirnir sem ferðuðust í leikinn séu klárir í slaginn.

„Það voru allir með á æfingunni í dag, allan tímann. Það var fínt. Engin meiðsli, það er bara mjög jákvætt," segir Arnar sem er ánægður með hversu vel ferðalagið tókst.

„Það er algjör lúxus að geta ferðast eins og við. Þetta er átta tíma beint flug en FIFA reglurnar eru þær að við verðum að vera í leiguflugi. Það þýðir að allir eru með sitt pláss í vélinni og auðvelt að koma sér í gegnum flugvöllinn. Þrátt fyrir vegalengdina var ferðalagið mjög gott og þægilegt. Það situr ekki í mönnum."

Sjá einnig:
Smelltu hér til að sjá landsliðshópinn

Búist við um 40 þúsund manns á leiknum
Hvað vill hann fá út úr þessum leik gegn Mexíkó?

„Við fyrst og fremst horfum á okkur sjálfa. Við erum mest að vinna í okkar hlutverkum, gildum og leikstíl. Það er það mikilvægasta. Við viljum bæta leik okkar og þjálfa strákana í okkar leikstíl, bæði varnarlega og sóknarlega. Svo viljum við gefa leikmönnum hlutverk í þessu liði því við erum að reyna að þróa leikmannahópinn," segir Arnar.

Í landsliðsferðinni segir Arnar að farið verði meðal annars yfir það sem fór vel í marsglugganum og einnig það sem betur mátti fara. Mexíkóska liðið er öðruvísi andstæðingur en Ísland hefur mætt síðan Arnar tók við.

„Þetta er mjög gott lið með tekníska en vinnusama leikmenn. Þeir eru með mikla hlaupagetu og eru í ellefta sæti á heimslistanum. Þetta er öðruvísi leikstíll, þessi ameríski. Það er ákveðin reynsla að spila þennan leik. Það er búist við um 40 þúsund manns á vellinum, eitthvað sem ekki er hægt í Evrópu núna og þetta verður bara spennandi."

Ansi marga leikmenn vantar í íslenska liðið eins og hefur verið rætt og ritað um. Er hætta á að liðið fái skell sem myndi leggjast illa í unga leikmenn liðsins?

„Sem íþróttamaður má maður aldrei fara inn í verkefni með hræðslu um að fá skell. Það getur alltaf gerst. Þú getur unnið stórt og þú getur tapað stórt. Það er hluti af íþróttinni. Við reynum að prenta inn í okkar leikmenn að þeir þori að gera mistök. Þá þora þeir að reyna þá hluti sem við erum að vinna eftir. Áherslan liggur ekki í úrslitunum núna heldur að sjá hverjir af þessum yngri geta og þora að taka skrefið. Við viljum þétta liðið og bæta leik liðsins um nokkur prósent," segir Arnar.

Ætlunin að eldri markverðirnir spili
Eftir leikinn gegn Mexíkó verður svo haldið í aðra vináttulandsleiki, útileiki gegn Færeyjum og Póllandi.

Fjórir markverðir eru í hópnum en Arnar segir að ekki sé ætlunin að skipta hálfleikjum á milli manna, stefnan sé sú að eldri markverðirnir spili leikina. Það eru þeir Rúnar Alex Rúnarsson og Ögmundur Kristinsson. Elías Rafn Ólafsson er einnig í hópnum í Bandaríkjunum og Patrik Sigurður Gunnarsson bætist svo við fyrir hina leikina.

„Það er ekki ætlunin núna að okkar yngstu markmenn séu að fara að spila. Við teljum að fyrstu skrefin hjá markvörðunum sé að koma inn í hópinn, æfa með eldri og reyndari leikmönnum og sjá hvernig umhverfið er. Maður vill helst sjá markvörð spila heilan leik til að geta metið frammistöðuna," segir Arnar.

Áætlað að leikmennirnir í íslensku deildinni fari heim eftir Mexíkóleikinn
Sjö leikmenn úr Pepsi Max-deildinni eru í hópnum. Það eru: Birkir Már Sævarsson, Brynjar Ingi Bjarnason, Hörður Ingi Gunnarsson, Ísak Óli Ólafsson, Rúnar Þór Sigurgeirsson, Þórir Jóhann Helgason og Gísli Eyjólfsson.

Stefnt er að því að þeir verði með gegn Mexíkó en haldi svo heim til Íslands þegar hópurinn fer til Færeyja og Póllands.

„Hugsunin er að allir Pepsi Max leikmennirnir hverfa á braut eftir þann leik. Ef það gerist eitthvað þá þyrfti ég að koma til baka og segja eitthvað annað. Planið er að þeir fari heim eftir Ameríkuferðina. Þá var ætlunin, þar til fyrir nokkrum dögum, að nokkrir aðrir myndu líka stíga út eftir Mexíkó leikinn. En þetta breytist það hratt að maður þorir varla að tjá sig um það," segir Arnar Þór Viðarsson.

Leikur Mexíkó og Íslands verður klukkan 1 eftir miðnætti næsta laugardagskvöld, aðfaranótt sunnudags. Hann verður sýndur beint á RÚV.
Athugasemdir
banner
banner
banner