Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   fim 27. maí 2021 19:51
Elvar Geir Magnússon
Hjörtur telur sig í sterkri stöðu - Meistari og landsliðsmaður án samnings
Icelandair
Hjörtur heldur á danska meistarabikarnum
Hjörtur heldur á danska meistarabikarnum
Mynd: Getty Images
Hjörtur Hermannsson.
Hjörtur Hermannsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta er frábær tilfinning, eitthvað sem maður getur vanist. Líka að klára þetta með Bröndby sem hefur lengi beðið eftir þessu," segir varnarmaðurinn Hjörtur Hermannsson sem varð danskur meistari með Bröndby um helgina.

Þetta var stór stund fyrir Bröndby sem varð síðast danskur meistari 2005 og stór stund að sjálfsögðu fyrir íslenska landsliðsmanninn sem vann sinn fyrsta landsmeistaratitil á ferlinum.

Fyrri hluta tímabilsins voru tækifæri Hjartar að skornum skammti en hann fór í mun stærra hlutverk seinni hluta tímabilsins.

„Tímabilið fyrir mig í heildina var ekki dans á rósum. Fyrri hluti tímabilsins var nokkuð þungur en eftir jól hef ég stimplað mig rækilega inn og spilað hvern einasta leik. Það er sérstaklega sætt að vera svona stór partur af meistaratitlinum."

Gæti hafa leikið sinn síðasta leik fyrir Bröndby
Samningur Hjartar við Bröndby var út þetta tímabil. Er hann búinn að spila sinn síðasta leik fyrir félagið?

„Það gefur augaleið að ég er samningslaus eins og stendur. Það gæti verið raunin að svo sé, en ég útiloka ekkert. Það verður bara að koma í ljós," segir Hjörtur sem heldur spilunum þétt að sér.

Eru einhverjar þreifingar í gangi með áframhaldandi samning við Bröndby eða er hann bara að líta í kringum sig?

„Ætli það sé ekki samblanda af þessu báðu. Ég er með lausan samning og hef fullan rétt á að líta í kringum mig. Ég hef verið fimm góð ár hérna, það er gott að vera í Kaupmannahöfn og með þessum titli er það tryggt að við verðum að minnsta kosti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar á næsta tímabili. Það væri engin synd að halda áfram."

Hefur hann fengið mörg símtöl nýlega?

„Ég hef lítið haft hugann við það. Mikil orka og mikið púður fór í að klára þennan titil. Það er ekki þannig að við rúlluðum yfir deildina. Þetta hefur verið mjög þétt síðustu vikur. Þú þyrftir að heyra í umboðsmanninum, það hafa verið einhver símtöl. Nú er ég í þessu landsliðsverkefni og sé til hvað gerist eftir það," segir Hjörtur sem er með íslenska landsliðinu í Bandaríkjunum þar sem framundan er vináttulandsleikur gegn Mexíkó. Hjörtur segir að staða sín sé góð.

„Ég er meistari, er án samnings en í sterkri stöðu að ég tel. Ég er landsliðsmaður. Það er stutta svarið."

Auk leiksins við Mexíkó eru vináttulandsleikir gegn Færeyjum og Póllandi einnig í þessum glugga.

„Þetta er spennandi verkefni, þrír góðir leikir. Aðstæður hér eru eins og best verður á kosið. Ég er þakklátur fyrir að vera hérna. Í hvert einasta skipti sem maður mætir með landsliðinu vill maður sýna sitt rétta andlit og það besta sem maður gerir í fótbolta er að spila fyrir landið sitt. Ég vonast til að nýta þetta verkefni til að reyna að koma mér í enn sterkari stöðu," segir Hjörtur Hermannsson.
Athugasemdir
banner
banner
banner