banner
   mið 27. júní 2018 23:30
Ívan Guðjón Baldursson
Di Maria: Real bannaði mér að spila úrslitaleikinn
Mynd: Getty Images
Angel Di Maria var lykilmaður í liði Argentínu á HM 2014 í Brasilíu, þar sem liðið fór alla leið í úrslitaleikinn.

Di Maria meiddist á læri í 8-liða úrslitunum en vildi spila úrslitaleikinn þrátt fyrir meiðslin, þar sem verkjalyf og sprauta nægðu til að honum liði vel á vellinum.

„Þetta var morguninn sem við áttum að spila úrslitaleikinn, klukkan 11. Ég var að bíða eftir þjálfaranum sem átti að sprauta verkjalyfjum í vöðvann svo ég gæti spilað úrslitaleikinn án þess að finna fyrir sársauka," sagði Di Maria.

„Ég sagði við þjálfarana að ég ætlaði að spila úrslitaleikinn sama hvað. Ég myndi spila hann fótbrotinn ef þess þyrfti. En svo kom liðslæknirinn í herbergið og hélt á umslagi."

Í umslaginu var bréf frá Real Madrid, félagsliði Di Maria á þeim tíma, sem sagði að leikmaðurinn mætti ekki spila úrslitaleikinn vegna meiðslanna.

„Um leið og ég heyrði innihaldið vissi ég hvað væri að gerast. Allir vissu að Real ætlaði að kaupa James Rodriguez og ég áttaði mig á því að ég yrði seldur til að gera pláss fyrir hann.

„Þannig að þeir vildu ekki missa mig í meiðsli, því þá hefðu þeir ekki getað selt mig strax. Mér leið eins og vöru, ekki manneskju."


Di Maria fékk ekki að spila leikinn sem tapaðist 1-0 gegn Þýskalandi.

Nú fær hann þó annað tækifæri til að vinna HM þar sem næsti leikur Argentínu er gegn Frakklandi.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner