Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   lau 27. ágúst 2022 20:08
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Laugardalsvelli
Voða auðvelt að sitja heima í stofu og hafa hátt á samfélagsmiðlum
Valur fagnar bikarmeistaratitlinum í dag.
Valur fagnar bikarmeistaratitlinum í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Valur varð í dag bikarmeistari í fyrsta sinn í ellefu ár.
Valur varð í dag bikarmeistari í fyrsta sinn í ellefu ár.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Úr leiknum í dag.
Úr leiknum í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Samkvæmt upplýsingum sem Fótbolti.net hefur fengið þá voru 1,652 áhorfendur á Laugardalsvelli í dag er úrslitaleikur Mjólkurbikars kvenna fór fram.

Tvö bestu lið landsins - Breiðablik og Valur - áttust við í frábærum fótboltaleik þar sem Valskonur fóru með sigur af hólmi eftir að hafa verið 1-0 undir í hálfleik.

Er þetta fyrsti bikarmeistaratitill Vals í ellefu ár.

Lestu um leikinn: Breiðablik 1 -  2 Valur

Leikurinn var mikil skemmtun og fór hann fram við frábærar aðstæður á Laugardalsvelli. Það var stórgott veður og þegar undirritaður gekk inn á leikvanginn þá var í rauninni bara heitt. Ekki oft sem maður segir það á Íslandi.

Það var vonast til þess að áhorfendametið yrði slegið á úrslitaleik í Mjólkurbikar kvenna, en það var langt því frá.

Áhorfendametið var sett árið 2015 þegar Stjarnan og Selfoss áttust við. Þá mættu 2,435 áhorfendur á Laugardalsvöll.

Það hefur verið mikil sókn í kvennaboltanum síðustu ár og var áhuginn á EM í sumar mikill. Það er kominn tími á að þetta met sé slegið, en það gerðist ekki í dag. Því miður var mætingin döpur sem er í raun skandall miðað við hvernig veðrið var og hvernig leikur þetta var.

Það er mögulega hægt að tala um að enski boltinn sé að trufla og eitthvað þannig, en á þeim tíma sem þessi leikur hefst þá eru nánast allir leikir dagsins á enda. Það er bara leikur Arsenal og Fulham sem er eftir.

Það var mikið af fólki sem lýsti yfir áhuga á kvennaboltanum í kringum EM í sumar, talaði um hvað mótið hefði verið flott og það myndi breyta miklu. En það er rosalega auðvelt að hafa hátt á samfélagsmiðlum.

Það er erfiðara að sýna áhuga í verki með því að mæta á völlinn og styðja við bakið á íslenskum kvennabolta. Það virðist allavega vera þannig.

Þetta er svekkjandi niðurstaða. Það fólk sem mætti gerð vel með því að láta vel í sér heyra, en það hefðu klárlega fleiri mátt mæta og hefði það verið í takt við allan þann vöxt sem hefur verið í kvennaboltanum. Leikurinn í dag var frábær auglýsing fyrir kvennaboltann og fótbolta á Íslandi almennt. Það er í raun sorglegt að fleiri hafi ekki mætt á þennan stórkostlega fótboltaleik.

Það er nóg eftir af þessu tímabili og um að gera að skella sér á völlinn - í öllum deildum. Það myndi eflaust gera mikið fyrir stelpurnar sem eru allflestar í fótbolta af lífi og sál, og eru miklar fyrirmyndir fyrir aðra. Sýnum stuðning í verki!


Athugasemdir
banner
banner