Guehi vill fara til Liverpool - Viðræður við Gordon ganga illa - Man Utd skoðar stjóra
banner
   fös 27. september 2024 09:30
Elvar Geir Magnússon
Sátu fastir í tvo og hálfan tíma
Gurban Gurbanov stjóri Qarabag,
Gurban Gurbanov stjóri Qarabag,
Mynd: EPA
Það gekk allt á afturfótunum hjá aserska liðinu Qarabag í gær. Það mætti of seint í leikinn gegn Tottenham í Evrópudeildinni, klúðraði víti og fjölda færa og tapaði 3-0 gegn tíu leikmönnum Tottenham.

Leikurinn hófst 35 mínútum á eftir áætlun þar sem liðsrúta Qarabag var föst í umferð í rúmlega tvo og hálfan tíma.

„Ímyndið ykkur að vera fastir í umferðinni svona lengi rétt fyrir leik, meira en tvo og hálfan tíma. Þetta hefði ekki átt að gerast og það var engin lögregla til að veita okkur forgang. Þetta hafði auðvitað áhrif á leikmenn," segir Gurban Gurbanov stjóri Qarabag.

Leikurinn sjálfur var ótrúlegur. Juninho klúðraði algjöru dauðafæri til að jafna leikinn og Toral Bayramov klúðraði vítaspyrnu í leiknum. Alls átti Qarabag fjórtán skot í leiknum, fjórum meira en Tottenham.

xG tölfræðin yfir vænt mörk segir að Tottenham hafi verið með 1,56 en Qarabag 2,43. Samt sem áður vann enska liðið 3-0.

Brennan Johnson, Pape Sarr og Dominic Solanke skoruðu mörk Tottenham eftir að Radu Dragusin fékk rautt spjald strax á áttundu mínútu.
Athugasemdir
banner
banner
banner