mið 28. febrúar 2018 21:06
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Freyr: Verður að nýta færin ef þú ert að leggja svona hart að þér
Freyr Alexandersson.
Freyr Alexandersson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland náði í gott stig gegn Danmörku. ,,Þetta lið (Danmörk) er þokkalega gott lið eins og þú segir.
Ísland náði í gott stig gegn Danmörku. ,,Þetta lið (Danmörk) er þokkalega gott lið eins og þú segir."
Mynd: Fotbolti.net - Anna Þonn
Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari, var í góðu skapi að venju þegar fréttamaður Fótbolta.net slá á þráðinn hjá honum í kvöld. Íslenska liðið gerði markalaust jafntefli við silfurliðið frá EM síðasta sumar, Danmörku, í fyrsta leik sínum á Algarve-mótinu.

„Ég er mjög ánægður með úrslitin," sagði Freyr. „Þetta lið (Danmörk) er þokkalega gott lið eins og þú segir."

„Við náðum að halda aftur af þeim, þær eiga hálffæri eftir föst leikatriði og eiga nokkur langskot. Við höldum þeim frá markinu og þá var markmiðinu okkar náð, að við ætluðum að spila mjög góðan varnarleik, bæði í hápressu og lágpressu."

„Það er taktíski vinkillinn sem við erum með í mótinu, að þétta raðirnar varnarlega og halda markinu okkar hreinu. Það gekk upp í dag á móti þessu sterka liði sem var með alla sína hættulegustu sóknarmenn inn á vellinum, nánast allan leikinn."

Bæði lið áttu sína kafla í leiknum og fékk Ísland góð færi til að skora. Freyr nefnir að fyrir leik hafi liðið talað um að það myndi nægja að fá fimm góð færi til að skora, Ísland fékk að hans sögn fjögur.

„Hann var kaflaskiptur. Við fáum þrjú mjög góð færi í fyrri hálfleik sem er eitt af fáum atriðum sem ég er óánægður með í leiknum. Þetta eru dauðafæri sem við erum að fara illa með."

Svona færi verður að nýta á móti liðum eins og Dönum.

„Akkúrat, þegar þú leggur svona mikið í varnarleikinn og ert að leggja svona hart að þér, þá verðurðu að nýta færin. Við lögðum upp með það í þessum leik að spila góða vörn og skapa okkur fimm góð færi, það ætti að skila okkur marki. Við sköpum okkur fjögur góð færi og skorum ekki, við áttum að skora og við þurfum að laga það."

Næstu leikir eru leikir gegn Japan, sem urðu heimsmeistarar árið 2011, og gegn Hollandi, sem urðu Evrópumeistarar síðasta sumar. „Þetta er bara spennandi," segir Freyr.

„Þetta er sterkar þjóðir. Evrópumeistararnir eru á einhverju skriði sem maður á erfitt með að setja í orð," sagði Freyr en Holland skoraði sex mörk gegn Japan í 6-2 sigri í dag. „Ég held að Japan hafi aldrei fengið sex mörk á sig áður."

„Við fáum Japanana brjálaða á móti okkur. Við stillum upp mjög ungu liði á móti Japönum en ég treysti þeim fullkomlega í það. Nú þurfa þær að taka við keflinu."

„Þetta verður hollt og gott fyrir okkur."

„Ef við höfum kraft og einbeitingu getum við strítt öllum liðum í heiminum. Við þurfum að passa að höfuðið sé rétt stillt og líkaminn sé eins orkumikill og völ er á."

Fanndís Friðriksdóttir var ekki með í dag. Freyr vonast til að hún verði með á föstudaginn gegn Japan.

„Hún er bara að glíma við meiðsli. Það er erfitt að áætla hversu lengi hún verður frá. Hún fékk eitthvað tak við lífbein á nára og það er erfitt að meðhöndla það."

„Við vitum ekki hvort hún verði klár á föstudaginn, við ætlum að reyna - það kemur í ljós á næstu dögum."

Næsti leikur Íslands er eins og áður segir á fötudaginn, gegn Japan.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner