Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   mið 28. apríl 2021 08:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Maður er búinn að eyða ansi mörgum klukkustundum hérna"
Lengjudeildin
Orri Freyr gerði þriggja ára samning við Þór.
Orri Freyr gerði þriggja ára samning við Þór.
Mynd: Þór
Í leik með Þór fyrir nokkrum árum síðan.
Í leik með Þór fyrir nokkrum árum síðan.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Aron Birkir Stefánsson.
Aron Birkir Stefánsson.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Alvaro Montejo.
Alvaro Montejo.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik Þórs og KA í Kjarnafæðismótinu á dögunum.
Úr leik Þórs og KA í Kjarnafæðismótinu á dögunum.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
„Þetta kemur lítið á óvart miðað við hvernig úrslitin voru á móti stóru liðunum í vetur," segir Orri Freyr Hjaltalín, þjálfari Þórs á Akureyri.

Þórsurum er spáð áttunda sæti Lengjudeildarinnar í sumar.

Veturinn góður þó úrslitin hafi ekki verið góð
„Við drógumst í mjög erfiðan riðil í Lengjubikarnum og vorum ekki nálægt því að vera full mannaðir í neinum af þessum leikjum. Við eigum marga mjög sterka leikmenn inni. Það er búið að vera töluvert um meiðsli og erlendu leikmennirnir sem við erum með voru ekki að spila þessa leiki heldur."

Orri segir að þrátt fyrir að úrslitin hafi ekki verið frábær þá hafi veturinn gengið vel í Þorpinu.

„Veturinn hefur gengið mjög vel. Það er búið að vera jákvæð og góð stemning í hópnum síðan við byrjuðum."

Lengi verið í pípunum
Orri var ráðinn til starfa hjá Þór í nóvember síðastliðnum skrifaði undir þriggja ára samning.

Orri, sem er fertugur, lék með Þór upp yngri flokkana og lengi í meistaraflokki. Hann lék einnig með Grindavík og Magna ásamt því að hafa leikið með GG í 4. deildinni sumrin 2018 og 2019. Eftir það lagði hann skóna á hilluna. Hann er ekki með mikla reynslu sem aðalþjálfari í meistaraflokki en hefur mikla reynslu af yngri flokka þjálfun.

„Það hefur verið í pípunum undanfarin ár að ég myndi koma í einhvers konar hlutverk hérna, hvort sem það yrði aðstoðarþjálfari eða annað. Ég lenti í alvarlegu vinnuslysi fyrir einu og hálfu ári, það frestaði aðeins plönunum."

„Svo var ég orðinn heill heilsu og hafði bullandi áhuga á að taka við þessu starfi. Ég er búinn að þjálfa í 25 ár en ekki meistaraflokk mikið. Ég var með Magna í tvö ár fyrir nokkrum árum. Ég hef verið að þjálfa í yngri flokkunum."

Hann segir að það hafi verið auðvelt að koma aftur inn í félagið. „Það hefur verið mjög gott. Ég þekki þetta félag út og inn, og þau þekkja mig. Það er mjög lítið að koma manni á óvart í þessum málum."

„Maður er nánast fæddur á þessu svæði. Maður er búinn að eyða ansi mörgum klukkustundum hérna, bæði út á velli og í félagsheimilinu."

Hver verður í markinu?
Markvörðurinn Aron Birkir Stefánsson glímir við hnémeiðsli en hann fór snemma leiks af velli þegar Þór mætti Völsungi í æfingaleik á dögunum. Aron er á leið í aðgerð í dag og verður hann frá næstu tíu til tólf vikurnar.

Auðunn Ingi Valtýsson, sem er á elsta ári í 2. flokki, varði mark Þórsara gegn KA í Kjarnafæðismótinu í síðustu viku og stóð sig vel. Orri segir að Þórsarar ætli sér að fá inn markvörð.

„Við eigum mjög öflugan strák sem heitir Auðunn. Hann er enn í 2. flokki en hann er alveg maður í að leysa þetta verkefni. Við erum að leita að öðrum markverði svo við getum verið með tvo góða," segir Orri.

„Það er mjög líklegt að við bætum við markverði, hvort sem það verður markvörður númer eitt eða tvö."

Halda Alvaro
Spænski sóknarmaðurinn Alvaro Montejo verður áfram í herbúðum Þórs í sumar. Hann er þrítugur sóknarmaður sem kom fyrst til Íslands árið 2014 og hefur leikið með Þór frá sumrinu 2018. Hann hefur spilað á Spáni í vetur.

„Hann er búinn að sýna það síðustu ár að hann er búinn að vera - að mínu viti - besti sóknarmaðurinn í þessari deild. Strákarnir treysta mikið á hann. Hann er búinn að skila helling af mörkum og það sem okkur hefur vantað í vetur, það er að skora mörk. Maður verður feginn þegar hann verður kominn."

Hann er ekki kominn til landsins og það er spurning hvort hann geti spilað fyrsta leik. „Hann kemur rétt um mánaðarmótin."

Það verða þrír erlendir leikmenn með Þór í sumar. Félagið samdi við serbneska miðvörðinn Petar Planic og hollenska miðjumanninn Liban Abdulahi í síðasta mánuði.

„Serbneski hafsentinn er búinn að vera hérna í hálfan mánuð og lítur vel út. Hann er stór og sterkur, vel spilandi og með mikla reynslu. Svo erum við með 26 ára Hollending sem er mjög flinkur í fótbolta, mikill fótboltaheili. Hann kemur til með að stýra miðjunni í sumar. Þessir strákar hafa komið mjög vel inn, bæði félagslega og fótboltalega."

Við megum ekki vera að flýta okkur of mikið
Þórsarar ætla sér að reyna að byggja meira á ungum og efnilegum drengjum sem eru í félaginu.

„Við með okkar sterkasta lið erum mjög sterkir. Markmiðið okkar í sumar er að fara í hvern einasta leik og vinna hann. Við erum að treysta á ungviðið líka. Það er í okkar áherslum að byggja upp á okkar strákum. Við eigum helling af ungum og efnilegum pjökkum sem ég held að séu tilbúnir að spila í þessari deild," segir Orri.

„Við höfum átt flotta spretti í vetur þó að úrslitin hafi litið illa út á pappír. Það endurspeglar ekki það hvernig leikirnir voru. Ungu strákarnir eiga margt eftir ólært en eru klárlega af réttri leið."

„Ég er bara mjög sáttur við hópinn. Ef það yrðu einhver meiðsli þá skoðum við að fá styrkingu."

Hann fékk spurninguna stóru sem allir þjálfarar fá; hvað er markmiðið fyrir sumarið?

„Markmiðið hjá Þór er alltaf að fara upp en eins og ég hef sagt áður þá þurfum við að gera þetta á réttum forsendum. Við megum ekki vera að flýta okkur alltof mikið. Við erum með fullt af ungum strákum sem munu vonandi blómstra í sumar og næstu árin. Markmiðið í sumar er að vera í baráttunni ásamt því að koma þessum ungu strákum meira inn í liðið."

„Við þurfum að vera með lið - þegar við förum upp - sem getur tekið þátt í efstu deild, ekki bara fara niður með fimm stig. Það er langt síðan Þór hefur átt stabílt úrvalsdeildarfélag. Það er góð og jákvæð uppbygging í gangi hérna. Við þurfum að vera þolinmóð," sagði Orri Freyr Hjaltalín, þjálfari Þórs á Akureyri sem er spáð áttunda sæti í Lengjudeildinni.
Athugasemdir
banner
banner
banner