Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   mið 28. apríl 2021 11:45
Magnús Már Einarsson
Merki KSÍ tilnefnt til alþjóðlegra verðlauna
Mynd: KSÍ
Knattspyrnusamband Íslands og auglýsingastofan Brandenburg hafa hlotið tilnefningar til alþjóðlegu hönnunarverðlaunanna The One Show fyrir ásýnd íslensku landsliðanna í knattspyrnu.

The One Show eða Gyllti blýanturinn, eru meðal virtustu auglýsinga- og hönnunarverðlauna í heimi og hafa verið veitt í næstum 50 ár. Meðal fyrirtækja sem unnið hafa til The One Show verðlaunanna eru Samsung, Nike, Coca-Cola, Apple, Adidas og Proctor & Gamble. Verkefni KSÍ er tilnefnt í flokki merkja (Logos) annars vegar og hinsvegar ásýndar (brand identity).

Stefán Sveinn Gunnarsson, markaðsstjóri KSÍ, er að vonum himinlifandi með tilnefningarnar. „Nýtt merki og útlit landsliðanna hafa fengið frábærar viðtökur, bæði hér á landi sem og erlendis. Tilnefningarnar eru uppskera á löngu og ströngu ferli sem við fórum í gegnum með Brandenburg. Verkefnið sem fól í sér heildarendurskoðun vörumerkja KSÍ var nokkuð flókin áskorun en þessi vinna var afar gefandi og lærdómsrík.“

Hrafn Gunnarsson er hugmynda- og hönnunarstjóri á Brandenburg. „Þetta er afar ánægjulegt. Það er alltaf jafn gaman að fá viðurkenningar fyrir okkar verk og sérstaklega svona verkefni sem öll þjóðin hefur skoðun á. Nú er bara að krossa fingur og vona að við náum í öll stigin þrjú — eða tvö í þessu tilfelli. En tilnefningarnar sjálfar eru mikill heiður á því stóra sviði sem The One Show er.“

Áður hefur verkefnið fengið hin virtu Clio verðlaun og tilnefningu til Epica verðlaunanna. Þá fékk verkefnið nýverið Lúðurinn í flokki mörkunar þegar markaðsverðlaun ÍMARK voru veitt.
Athugasemdir
banner
banner
banner