Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 28. ágúst 2018 14:05
Elvar Geir Magnússon
Baldur Sig: Kemur ekki oft svona úrslitaleikur stuttu fyrir mótslok
Baldur fór meiddur af velli í síðasta leik en vonast til að vera klár á morgun.
Baldur fór meiddur af velli í síðasta leik en vonast til að vera klár á morgun.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Baldur Sigurðsson, fyrirliði Stjörnunnar, vonast til að vera klár í toppslaginn á morgun gegn Val í Garðabænum. Baldur fór meiddur af velli í sigrinum gegn Breiðabliki um liðna helgi.

„Ég fékk aðeins í lærið þegar ég skoraði, ég er ekki vanur því að teygja löppina svona mikið. Þetta lítur alveg ágætlega út en við sjáum betur til á æfingunni á eftir," segir Baldur.

Eftir stórleik morgundagsins verða öll lið deildarinnar búin með 18 leiki en Stjarnan jafnar Val að stigum með sigri og kemst á toppinn.

Er öðruvísi tilfinning fyrir svona leiki en hefðbundna deildarleiki?

„Tilfinningin er svipuð og hún var fyrir Blikaleikinn. Þetta er gríðarlega mikilvægur leikur. Við urðum að vinna Blika til að gera þennan leik enn skemmtilegri og það tókst. Svona leikir gefa manni nokkur aukaprósent, ég verð að viðurkenna það. Þetta er býsna mikilvægur leikur fyrir framhaldið."

Hvernig þarf Stjarnan að mæta Val?

„Við þurfum fyrst og fremst að óttast ekkert. Við berum virðingu fyrir Val sem er með frábært lið. Allir aðdáendur íslenska boltans vita hvernig Valur spilar og liðið er með mikil gæði. Við höfum verið að undirbúa okkur vel og síðasta æfing er á eftir. Valsmenn hafa heilsteypt lið frá markverði til fremsta manns og eru með mörg vopn í eldinum. Við þurfum að nálgast þennan leik á okkar forsendum og spila okkar leik," segir Baldur.

„Við segjum það hreint út að við ætlum að vinna þennan leik. Valur stefnir á það líka. Þeir vita að þeir koma sér í býsna góða sögu ef þeir vinna. Vonandi verður þetta mjög góð skemmtun fyrir leikmenn og áhorfendur. Ég býst við troðfullum velli og góðri stemningu. Það gerist ekki oft að það komi svona úrslitaleikur stuttu fyrir mótslok."

Fyrri leikur þessara liða endaði með 2-2 jafntefli.

„Það var opinn leikur og skemmtilegur. Það voru mikil læti. Ég býst við því sama á morgun," segir Baldur Sigurðsson.

Leikur Stjörnunnar og Vals á morgun verður 19:15.
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner