Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   lau 28. ágúst 2021 21:08
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pepsi Max-deildin: Þungt yfir Val - Stjarnan vann á Hlíðarenda
Björn Berg skoraði sigurmark Stjörnunnar.
Björn Berg skoraði sigurmark Stjörnunnar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valur 1 - 2 Stjarnan
0-1 Einar Karl Ingvarsson ('45 )
1-1 Tryggvi Hrafn Haraldsson ('58 )
1-2 Björn Berg Bryde ('84 )
Lestu um leikinn

Það gengur hvorki né rekur hjá Valsmönnum þessa stundina. Íslandsmeistararnir þurftu að sætta sig við tap gegn Stjörnunni í fyrsta leik 19. umferðar í kvöld.

Fyrri hálfleikurinn var ekki upp á marga fiska en undir lok hálfleiksins skoraði Einar Karl Ingvarsson, fyrrum leikmaður Vals, beint úr aukaspyrnu og kom gestunum úr Garðabæ yfir.

Tryggvi Hrafn Haraldsson jafnaði metin snemma í seinni hálfleik, stuttu eftir að Sverrir Páll Hjaltested brenndi af dauðafæri. Tryggvi skoraði eftir slæm mistök hjá Elís Rafni Björnssyni í vörn Stjörnumanna.

„Valsmenn eru farnir að herja ansi mikið á Stjörnumenn, þetta er bara orðið svipað og Liverpool-Chelsea sem var hérna fyrr í dag," skrifaði Arnar Laufdal í beinni textalýsingu á 75. mínútu en ekki komið markið hjá heimamönnum.

Það kom hins vegar hjá gestunum, á 84. mínútu. „Aukaspyrna inn á teiginn, sturluð fyrirgjöf og Björn Berg er gapandi frír í teignum og skallar boltann auðveldlega í markið," skrifaði Arnar þegar Björn Berg Bryde kom Stjörnunni aftur í forystu eftir sendingu frá Hilmari Árna Halldórssyni.

Valsmenn náðu ekki að svara og lokatölur 2-1 fyrir Stjörnuna sem hefur núna unnið tvo leiki í röð og er núna átta stigum frá fallsvæðinu. Valur hefur tapað þremur af síðustu fjórum leikjum sínum og eru tveimur stigum frá toppnum. Ef Breiðablik vinnur Fylki á morgun, þá er Valur fimm stigum frá toppnum með þrjá leiki eftir.
Athugasemdir
banner
banner
banner