sun 28. ágúst 2022 19:55
Brynjar Ingi Erluson
Þrettánda mark Hólmberts á tímabilinu - Kristall Máni skoraði tvö fyrir Rosenborg
Brynjar Ingi spilaði fyrsta deildarleik sinn síðan í maí
Kristall Máni Ingason skoraði tvö fyrir Rosenborg
Kristall Máni Ingason skoraði tvö fyrir Rosenborg
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hólmbert skoraði fyrir Lilleström og er með þrettán mörk í öllum keppnum
Hólmbert skoraði fyrir Lilleström og er með þrettán mörk í öllum keppnum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Axel Óskar skoraði í sigri Örebro
Axel Óskar skoraði í sigri Örebro
Mynd: Örebro
Hákon og félagar í FCK eru að byrja tímabilið erfiðlega
Hákon og félagar í FCK eru að byrja tímabilið erfiðlega
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hólmbert Aron Friðjónsson skoraði þrettánda mark sitt í öllum keppnum fyrir Lilleström er liðið gerði 1-1 jafntefli við Kristiansund í norsku úrvalsdeildinni í dag. Axel Óskar Andrésson gerði þá mark í 2-1 sigri Örebro í sænsku B-deildinni. Kristall Máni Ingason kom sér á blað með Rosenborg og gerði það með látum með því að skora tvö mörk í 4-3 tapi gegn Tromsö.

Hólmbert Aron var í byrjunarliði Lilleström og skoraði mark sitt á 23. mínútu en þetta var fimmta mark hans í deildinni og er hann því kominn með þrettán mörk í öllum keppnum með Lilleström á tímabilinu.

Framherjinn fór af velli á 66. mínútu leiksins. Brynjólfur Andersen Willumsson kom inná sem varamaður á 76. mínútu hjá Kristiansund en leiknum lauk með 1-1 jafntefli. Lilleström er í 3. sæti með 41 stig á meðan Kristiansund er í neðsta sæti með 7 stig.

Vålerenga lagði Viking, 2-1, í sömu deild. Patrik Sigurður Gunnarsson stóð allan tímann í rammanum hjá Viking en Brynjar Ingi Bjarnason kom inná sem varamaður undir lok leiks hjá Vålerenga. Þetta var fyrsti deildarleikur hans síðan í maí. Vålerenga er í 5. sæti með 33 stig en Viking í 6. sæti með 29 stig.

Kristall Máni Ingason kom sér á blað með Rosenborg í 4-3 tapi gegn Tromsö. Hann skoraði tvö mörk fyrir liðið en síðara markið var úr vítaspyrnu áður en hann fór af velli um fimmtán mínútum fyrir leikslok. Hann er með tvö mörk í fyrstu fjórum deildarleikjum sínum með Rosenborg sem er í 4. sæti með 37 stig.

Arnór Ingvi Traustason og Ari Freyr Skúlason voru í byrjunarliði Norrköping sem gerði 1-1 jafntefli við Varberg í sænsku úrvalsdeildinni. Andri Lucas Guðjohnsen kom inná sem varamaður á 70. mínútu og þá fór Arnór Ingvi af velli fimm mínútum síðar.

Arnór Sigurðsson var ekki með í dag þar sem hann tók út leikbann og þá var Oskar Sverrisson ekki með Varberg. Norrköping er í 11. sæti með 21 stig og Varberg sæti neðar með jafnmörg stig.

Aron Bjarnason og Óli Valur Ómarsson voru báðir í byrjunarliði Sirius sem tapaði fyrir Gautaborg, 2-0. Óli Valur fór af velli á 56. mínútu. Sirius er í 9. sæti með 25 stig.

Davíð Kristján Ólafsson lék allan leikinn fyrir Kalmar sem vann Malmö, 1-0. Kalmar er í 7. sæti með 33 stig.

Axel Óskar Andrésson og Valgeir Valgeirsson voru í byrjunarliði Örebro sem vann Utsikten, 2-1. Axel Óskar jafnaði metin fyrir Örebro á 23. mínútu leiksins og þá gerði Örebro sigurmarkið úr vítaspyrnu undir lok leiks. Valgeir var skipt af velli á 66. mínútu en Örebro er í 8. sæti með 27 stig.

Grátleg tap hjá Lyngby

Freyr Alexandersson og lærisveinar hans í Lyngby töpuðu fyrir Viborg, 2-1. Sævar Atli Magnússon kom inná sem varamaður á 83. mínútu í stöðunni 1-0 fyrir Lyngby en Viborg gerði tvö mörk seint í uppbótartíma og hafði sigur. Lyngby er með 2 stig á botninum.

Dönsku meistararnir í FCK töpuðu fyrir Nordsjælland, 3-1, í dag, en Hákon Arnar Haraldsson byrjaði hjá FCK og fór af velli á 83. mínútu leiksins. FCK er í 7. sæti með 9 stig.

Aron Elís Þrándarson lék allan leikinn er OB lagði Silkeborg að velli, 2-1. Stefán Teitur Þórðarson kom inná sem varamaður á 62. mínútu í liði Silkeborg sem er í 3. sæti með 13 stig á meðan OB er í 8. sæti með 7 stig.

Kristian Nökkvi Hlynsson spilaði allan leikinn fyrir unglinga- og varalið Ajax sem tapaði 4-0 fyrir Den Haag í hollensku B-deildinni.

Daníel Leó Grétarsson lék þá allan leikinn í vörn Slask Wroclaw sem tapaði fyrir Rakow, 4-1, í pólsku úrvalsdeildinni. Slask er í 10. sæti með 9 stig.

Róbert Orri Þorkelsson kom inná sem varamaður á 63. mínútu í 2-0 sigri Montreal á Chicago Fire í MLS-deildinni í nótt. Montreal er í 2. sæti Austur-deildarinnar með 49 stig.

Viðar Ari Jónsson kom inná sem varamaður á 55. mínútu er Honved tapaði fyrir Ferencvaros, 3-1, í ungversku deildinni. Honved er í 8. sæti með 4 stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner