þri 28. september 2021 08:53
Elvar Geir Magnússon
Heimild: Morgunblaðið 
„Mistök hjá stjórn KSÍ að banna Kolbeini að mæta"
Kolbeinn Sigþórsson.
Kolbeinn Sigþórsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á fimmtudag mun Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari opinbera hóp fyrir heimaleiki gegn Armeníu og Liechtenstein í undankeppni HM sem fram fara í október.

Bjarni Helgason blaðamaður á Morgunblaðinu skrifar pistil á íþróttasíðum blaðsins þar sem hann segist telja hrein og klár mistök hjá stjórn KSÍ að hafa bannað val á Kolbeini Sigþórssyni í síðasta landsleikjaglugga.

„Kolbeinn er ekki til taks fyrir næsta verkefni vegna meiðsla en hefði hann gefið kost á sér núna yfir höfuð ef hann væri heill heilsu?" spyr Bjarni í pistlinum.

Stjórn KSÍ ákvað að Kolbeinn yrði dreginn úr hópnum í kjölfar þess að fjölmiðlaumfjöllun fór af stað um að hann hafi beitt konu kyn­ferðis­legu of­beldi á skemmti­stað í Reykja­vík árið 2017.

„Sátt náðist í hans mál árið 2018 og því spyr maður sig eðlilega hvort þetta hafi ekki bara verið einn stór leikþáttur og hrein og klár mistök hjá stjórn KSÍ að banna honum að mæta í leikina gegn Rúmeníu, Norður Makedóníu og Þýskalandi enda stjórnin meira en meðvituð um meint brot hans fyrir fjórum árum."

„Maðurinn baðst afsökunar og greiddi himinháar bætur. Var nauðsynlegt að refsa honum enn frekar og þá hversu lengi? Dómstöll götunnar Twitter er vægðarlaus, svo mikið er víst, en eins og nýliðnar alþingiskosningar sýndu fram á endurspeglar bergmálshellirinn á Twitter ekki alltaf vilja þjóðarinnar," skrifar Bjarni.

„Ég óska þess að ný stjórn KSÍ taki á öllum kynferðis- og ofbeldismálum af mikilli festu en það þarf líka að anda inn, og svo út, þegar svona mál eru til umræðu."


Bjarni Helgason
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner