þri 28. september 2021 09:09
Elvar Geir Magnússon
Ráðningin á Nuno að snúast upp í martröð
Nuno Espirito Santo.
Nuno Espirito Santo.
Mynd: EPA
Ráðningin á Nuno Espirito Santo í stjórastól Tottenham er að snúast upp í martröð en þetta segir Chris Sutton, sparkspekingur BBC og fyrrum sóknarmaður.

Tottenham var á toppi ensku úrvalsdeildarinnar eftir þrjá 1-0 sigra í fyrstu þremur leikjunum en 3-1 tapið gegn erkifjendunum í Arsenal um helgina var hinsvegar þriðji tapleikur liðsins í röð.

Sá leikur kom í kjölfarið á tveimur 3-0 ósigrum, gegn Crystal Palace og Chelsea.

„Það lítur út fyrir að hann sé ekki rétti maðurinn í starfið. Hann þarf að vinna stuðningsmenn Spurs á sitt band og ég er ekki viss um að hann muni geta það," segir Sutton.

Þegar tölfræðin er skoðuð kemur í ljós að Tottenham er í neðsta sæti þegar kemur að skottilraunum og sköpuðum færum.

„Hann var ekki fyrsti kostur og ekki heldur annar. Á síðasta tímabili var Wolves liðið á hraðri niðurleið undir hans stjórn og stuðningsmenn Tottenham voru aldrei að fara að vera ánægðir með hans leikstíl. Ég held að þeir fái aldrei fótboltann sem þeir vilja með hann við stjórnvölinn og þetta er að snúast upp í martröð."

Tottenham leitaði víða í stjóraleit sinni eftir síðasta tímabil. Félagið ræddi við Mauricio Pochettino, Antonio Conte, Paulo Fonseca og Gennaro Gattuso og mögulega fleiri áður en kom að Nuno á blaðinu.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner