Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   þri 28. september 2021 12:46
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Það er svo augljóst hvað Fram skiptir hann miklu máli"
Nonni fremstur með derhúfuna.
Nonni fremstur með derhúfuna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jón Sveinsson hefur gert virkilega góða hluti sem þjálfari Fram síðustu þrjú árin. Í sumar átti liðið frábært tímabil undir hans stjórn, sló stigamet og fór ósigrað í gegnum Lengjudeildina.

Nonni, eins og hann er oftast kallaður, tók við þjálfun liðsins fyrir tímabilið 2019. Hann er fæddur árið 1965 og fékk í sumar fullt hús atkvæða í kjörinu um þjálfara ársins í deildinni.

Eftirfarandi var skrifað um Nonna þegar hann var tilkynntur sem þjálfari Fram eftir tímabilið 2018.

Jón er einn leikjahæsti leikmaður í sögu Fram með 312 leiki fyrir meistaraflokk félagsins. Jón lék sinn fyrsta leik fyrir Fram árið 1983 og þann síðasta árið 1999. Hann varð þrisvar sinnum Íslandsmeistari og þrisvar sinnum bikarmeistari með félaginu á 9. áratugnum. Jón hefur mikla reynslu sem þjálfari, bæði sem þjálfari yngri flokka og sem aðstoðarþjálfari meistaraflokks.

Hann hóf þjálfaraferilinn sem þjálfari 2. flokks Fram árið 2001 og var aðstoðarþjálfari Kristins R. Jónssonar með meistaraflokk Fram árið 2002. Jón var einnig aðstoðarþjálfari Þorvaldar Örlygssonar hjá Fram árið 2009. Haustið 2017 kom Jón aftur til starfa hjá Fram og hefur hann þjálfað 3. flokk karla hjá félaginu síðasta árið.


Þeir Gunnar Gunnarsson og Indriði Áki Þorláksson, leikmenn Fram, voru gestir í hlaðvarpsþættinum Enski boltinn í síðustu viku. Þeir voru spurðir hvernig þjálfari Nonni væri.

„Hann er rosalega góður félagi og mjög jarðbundinn náungi. Hann nær rosalega vel til allra og Steini [Aðalsteinn Aðalsteinsson, aðstoðarþjálfari] líka. Þeir eru báðir mjög léttir en Steini er aðeins meiri djókari. Nonni er mjög jarðbundinn eins og hefur sést í viðtölum. Hann er ekkert að fara fram úr sér og það er frekar auðvelt að líta upp til hans," sagði Gunnar.

„Það er líka svo augljóst hvað Fram skiptir hann miklu máli. Það hefur verið talað um hversu vel hann hefur staðið sig í því að hvetja okkur áfram allt tímabilið. Það er bara út af því honum þykir svo hrikalega vænt um félagið og vill að það sé á góðum stað. Það er erfitt að fylgja því ekki og fyrir honum er þetta stærsti klúbbur á Íslandi. Maður vill sjá félagið þar þegar maður hlustar á hann tala," sagði Indriði.

Hefur hann tekið reiðiskastið á æfingu? „Nei, ég hef nú aldrei séð það. Hann byrstir sig og verður mjög ákveðinn en ég hef aldrei séð hann taka einhvern trylling. Maður sér að hann er með skap en hann nær að hemja það vel. Það er aðallega kannski á hliðarlínunni, hann verður kannski æstari þar, eins og gengur og gerist," sagði Gunnar.
Enski boltinn - Umferðin skoðuð og horft Fram á við
Athugasemdir
banner
banner
banner