Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   fim 28. nóvember 2019 11:30
Magnús Már Einarsson
KSÍ býður upp á UEFA Pro námskeið frá og með næsta ári
Erik Hamren og Freyr Alexandersson eru báðir með UEFA Pro gráðuna.
Erik Hamren og Freyr Alexandersson eru báðir með UEFA Pro gráðuna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KSÍ mun á næstu árum bjóða upp á tvö UEFA Pro þjálfaranámskeið - það fyrra stendur yfir 2020-2021 og það síðara 2022-2023. Með innleiðingu UEFA Pro gráðunnar tekur KSÍ stórt skref með það að markmiði að auka fagmennsku í þjálfun á hæsta stigi í knattspyrnu á Íslandi.

Hingað til hafa þjálfarar á Íslandi leitað erlendis til að afla sér UEFA pro þjálfararéttinda. Nú síðast útskrifaðist Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, með slík réttindi í Svíþjóð á dögunum.

UEFA Pro þjálfaragráða er æðsta þjálfaragráða UEFA og er fyrir þjálfara sem starfa á hæsta stigi hvers lands við knattspyrnuþjálfun. UEFA Pro þjálfarar eru aðalþjálfarar leikmanna sem eru atvinnumenn eða hálf-atvinnumenn.

KSÍ auglýsir hér með eftir umsóknum um þátttöku í 2020-2021 námskeiðinu. Umsóknarfrestur er til 6. desember 2019 og námskeiðið hefst formlega í febrúar 2020.

Samkvæmt reglum UEFA er lágmarks tímafjöldi UEFA Pro námskeiðs 360 stundir (til samanburðar þá er lágmarksfjöldi á UEFA A námskeiði 180 stundir). Námskeiðsgjald er kr. 1.000.000 sem greiðist í tvennu lagi kr. 500.000 fyrir febrúar 2020 og kr. 500.000 við lok námskeiðsins, í ágúst 2021 (verði námskeiðskostnaður undir kr. 1.000.000 mun síðari upphæðin lækka í samræmi við það).

Þess utan þurfa þátttakendur að greiða fyrir 4-5 daga námsferð erlendis þar sem skoðaðar verða aðstæður hjá atvinnumannafélagi.

Ljóst er að KSÍ mun uppfæra reglugerð KSÍ um menntun knattspyrnuþjálfara og leyfisreglugerð KSÍ og samræma við leyfisreglugerð UEFA. Stjórn KSÍ mun taka fyrirhugaðar breytingar fyrir á fundi sínum í nóvember, en stefnt er að því að UEFA Pro gráðan verði tekin upp sem hluti af leyfisreglugerð KSÍ með gildistíma frá og með leyfisferlinu fyrir keppnistímabilið 2024.

Inntökureglur
18 þjálfarar með KSÍ A/UEFA A þjálfaragráðu fá pláss á námskeiðið. Athugið að a.m.k. eitt ár þarf að vera liðið frá því viðkomandi kláraði A-þjálfaragráðuna.

Einungis aðalþjálfarar og aðstoðarþjálfarar í efstu deild, aðalþjálfarar í næst efstu deild og aðalþjálfarar U17/U19/U21/A-landsliða geta sótt um pláss á námskeiðinu.

Aðalþjálfarar í efstu deild komast sjálfkrafa inn.

Aðalþjálfarar U17/U19/U21/A-landsliða KSÍ komast sjálfkrafa inn.

Ef enn eru sæti laus á námskeiðið þá eru þau fyrir aðstoðarþjálfara í efstu deild og aðalþjálfara í næstu efstu deild. Þar gildir stigalisti þar sem umsækjendur fá stig fyrir þjálfaraferil, menntun og leikmannaferil.

Þegar talað er um efstu deild eða næst efstu deild, þá á það í öllum tilvikum við um bæði karla og kvenna deildir.

Umsóknareyðublað og nánari upplýsingar á vef KSÍ
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner