banner
   mið 29. janúar 2020 21:40
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Enski deildabikarinn: Man Utd vann en það var ekki nóg
Manchester City - Aston Villa í úrslitaleiknum
Matic skoraði en fékk svo rautt.
Matic skoraði en fékk svo rautt.
Mynd: Getty Images
Þessir frábæru fótboltamenn spila í úrslitaleiknum.
Þessir frábæru fótboltamenn spila í úrslitaleiknum.
Mynd: Getty Images
Fred tekur aukaspyrnu sem fer beint í varnarvegginn.
Fred tekur aukaspyrnu sem fer beint í varnarvegginn.
Mynd: Getty Images
Manchester City 0 - 1 Manchester Utd (samanlagt 3-2)
0-1 Nemanja Matic ('35 )
Rautt spjald: Nemanja Matic, Manchester Utd ('76)

Manchester City er komið í úrslitaleik enska deildabikarsins þrátt fyrir tap gegn Manchester United á heimavelli í kvöld.

Man City vann fyrri leikinn 3-1 og var því með nokkuð þægilega forystu fyrir leikinn í kvöld. Útivallarmörk gilda ekki í deildabikarnum og því var nóg fyrir United að vinna 2-0 til að komast í vítaspyrnukeppni.

City stillti upp í þriggja manna varnarlínu með tvo bakverði og einn miðvörð. Það byrjaði mjög vel fyrir þá og var pressan árangursrík, alla vega í byrjun. Sergio Aguero komst nálægt því að skora á sjöundu mínútu, en David de Gea varði vel frá honum.

Heimamenn vildu fá víti stuttu síðar þegar Raheem Sterling féll í teignum eftir viðskipti við Harry Maguire. Það var hins vegar ekkert dæmt.

City réð ferðinni og því kom það á óvart að United skyldi ná forystunni þegar 10 mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Fred tók aukaspyrnu sem var skölluð fyrir fætur Nemanja Matic. Serbinn hitti boltann fullkomlega og skoraði fram hjá Claudio Bravo.

Sterling náði að koma boltanum í netið hinum megin fyrir leikhlé, en var réttilega dæmdur rangstæður. Staðan var 1-0 í hálfleik og United var enn inn í einvíginu.

Maguire, fyrirliði Man Utd, fékk gott færi til að jafna einvígið í byrjun seinni hálfleiksins en skalli hans fór yfir markið. Man Utd byrjaði seinni hálfleikinn nokkuð vel, en þegar leið á hann fór City að taka stjórnina.

Sterling fékk mjög gott færi til að skora sitt fyrsta mark gegn Manchester United á 58. mínútu. Hann skaut hins vegar yfir þegar David de Gea var kominn í jörðina. Hann náði því ekki að róa taugar stuðningsmanna þeirra bláklæddu.

Á 76. mínútu róuðust taugar stuðningsmanna City kannski aðeins þegar Nemanja Matic, markaskorari Manchester United, var rekinn af velli með tvö gul spjöld. Hann stoppaði skyndisókn í síðara broti sínu og var réttilega rekinn út af. Man Utd því einum færri síðustu 15 mínúturnar eða svo.

Aguero skoraði á 84. mínútu, en aftur var dæmd rangstæða. City náði ekki að skora löglegt mark í kvöld.

Gestirnir fengu aukaspyrnu rétt fyrir utan teig á 88. mínútu, en Fred tók spyrnuna og setti beint í vegginn. Furðuleg ákvörðun að Fred skyldi taka spyrnuna í ljósi þess að Juan Mata var inn á vellinum.

Þar við sat og er City því komið í úrslitaleikinn á Wembley. Mótherjinn þar verður Aston Villa sem sló Leicester úr leik í gær. City er ríkjandi deildabikarmeistari.

Man Utd er úr leik þrátt fyrir ágætis baráttu í kvöld. Þess má geta að þetta er í annað sinn á tímabilinu sem Man Utd vinnur á Etihad-vellinum.
Athugasemdir
banner
banner
banner