sun 29. janúar 2023 18:05
Ívan Guðjón Baldursson
Robertson: Vildum nýtt upphaf en höfum bara verið verri
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Andy Robertson bar fyrirliðaband Liverpool gegn Brighton í enska bikarnum í dag.


Liverpool tapaði leiknum 2-1 eftir að Kaoru Mitomu gerði glæsilegt sigurmark í uppbótartíma og var Robertson afar svekktur að leikslokum.

„Þessi leiktíð hefur ekki verið næstum því nægilega góð. Við vorum staðráðnir í nýtt upphaf, að byrja nýtt ár af krafti, en það gerðist ekki - við höfum bara verið verri. Okkur gengur ekki nógu vel í deildinni og núna erum við dottnir út úr báðum bikarkeppnunum," sagði Robertson við ITV að leikslokum. En hvert er þá vandamálið?

„Það er ekki hægt að setja fingurinn á einhvern einn hlut. Það er meira en það. Við erum ekki með sama sjálfstraust og áður í sókninni og svo erum við alltof opnir í vörninni. Við héldum hreinu í tveimur leikjum fyrir þennan og fáum svo á okkur tvö mörk núna. Það er ekki nógu gott."

Robertson telur þetta snúast um sjálfstraust en áttar sig fullvel á því hversu erfitt það er að vinna það aftur upp.

„Það er hægara sagt en gert að ná sjálfstraustinu aftur upp. Það er eina leiðin til að ná betri úrslitum."

Það er mikill munur á stöðunni innan herbúða Liverpool í dag og fyrir ári síðan, þegar liðið var að keppa um fjóra titla á þessum tímapunkti leiktíðarinnar.


Athugasemdir
banner
banner
banner