Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mið 29. apríl 2020 06:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Þakkar Neville fyrir að hafa tekið áhættur
Millie Bright.
Millie Bright.
Mynd: Getty Images
Millie Bright, varnarmaður enska landsliðsins, hefur þakkað Phil Neville fyrir að hafa þorað að taka áhættur sem landsliðsþjálfari.

Neville hefur staðfest að hann muni hætta sem þjálfari enska kvennalandsliðsins þegar samningur hans rennur út sumarið 2021.

Þetta þýðir að hann mun ekki stýra liðinu á EM í Englandi eins og áætlað var. EM átti að fara fram 2021 en þar sem EM karla og Ólympíuleikarnir færðust til sumarsins 2021 vegna kórónuveirunnar þá mun EM kvenna fara fram 2022.

Neville er 43 ára gamall og hefur stýrt enska kvennalandsliðinu frá 2018. Undir hans stjórn endaði England í fjórða sæti á HM í fyrra. Eftir HM hafa úrslitin í æfingaleikjum ekki verið ásættanleg og hefur enska liðið aðeins unnið þrjá af síðustu tíu leikjum sínum.

Bright, sem leikur með Chelsea, sagði við Sky Sports um Neville: „Þetta er sorglegt. Þú vilt aldrei sjá þjálfara hverfa á braut."

„Við erum allar mjög þakklátar fyrir það sem hann hefur gert fyrir leikinn í heild sinni, ekki bara fyrir okkur sem hóp. Við erum líka þakklátar fyrir minningarnar."

„Hann hefur breytt miklu. Hann hefur látið í sér heyra og tekið áhættur til þess að breyta leiknum til hins betra og sjá til þess að kvennalandsliðið fái allt það sem það á skilið, það sem við eigum skilið."

Neville er fyrrum leikmaður Manchester United og Everton. Landsliðsþjálfarastarfið hjá Englandi er hans fyrsta aðalþjálfarastarf.
Athugasemdir
banner
banner
banner