fim 29. apríl 2021 21:00
Ívan Guðjón Baldursson
Evrópudeildin: Man Utd skoraði sex - Arsenal tapaði
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Manchester United tók á móti Roma í undanúrslitum Evrópudeildarinnar í kvöld á meðan Arsenal heimsótti Villarreal. Úr urðu hörkuleikir.

Man Utd tók forystuna á Old Trafford en gestirnir frá Róm svöruðu fyrir sig með tveimur mörkum og leiddu því í leikhlé.

Edinson Cavani klúðraði dauðafæri undir lok fyrri hálfleiks en reimdi á sig markaskóna fyrir þann síðari og setti tvennu á fyrstu 20 mínútunum. Staðan orðin 3-2 fyrir Man Utd.

Sóknarmenn Rauðu djöflanna léku lausum hala í síðari hálfleik og röðuðu inn mörkunum. Bruno Fernandes skoraði úr vítaspyrnu og lagði svo upp fyrir Paul Pogba áður en Mason Greenwood kom inn af bekknum og skoraði skömmu síðar eftir undirbúning frá Cavani.

Stórkostlegt að sjá til Man Utd í síðari hálfleik og urðu lokatölur 6-2. Cavani skoraði tvö og lagði tvö upp, auk þess að vinna vítaspyrnuna sem Fernandes skoraði úr.

Man Utd 6 - 2 Roma
1-0 Bruno Fernandes ('9)
1-1 Lorenzo Pellegrini ('15, víti)
1-2 Edin Dzeko ('34)
2-2 Edinson Cavani ('48)
3-2 Edinson Cavani ('64)
4-2 Bruno Fernandes ('71, víti)
5-2 Paul Pogba ('75)
6-2 Mason Greenwood ('86)

Arsenal gekk ekki jafn vel í sínum leik þar sem heimamenn í Villarreal tóku forystuna snemma leiks og bættu öðru marki við áður en flautað var til hálfleiks.

Lærisveinar Mikel Arteta voru slakir í fyrri hálfleik en hófu síðari hálfleikinn af krafti. Krafturinn virtist aðeins fara úr gestunum þegar Dani Ceballos fékk að líta rautt spjald snemma í síðari hálfleik en þeir gáfust þó ekki upp og spiluðu betur heldur en þegar jafnt var í liðum.

Bukayo Saka fiskaði vítaspyrnu þegar hann reyndi að hlaupa í gegnum vörn Villarreal og skoraði Nicolas Pepe með skoti í mitt markið.

Skömmu síðar fékk Etienne Capoue rautt spjald í liði Villarreal en meira var ekki skorað og lokatölur 2-1. Spennandi seinni leikur framundan á Emirates.

Villarreal 2 - 1 Arsenal
1-0 Manu Trigueros ('5)
2-0 Raul Albiol ('29)
2-1 Nicolas Pepe ('73, víti)
Rautt spjald: Dani Ceballos, Arsenal ('57)
Rautt spjald: Etienne Capoue, Villarreal ('80)
Athugasemdir
banner
banner