lau 29. maí 2021 20:57
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Chelsea vann Meistaradeildina
Annar Meistaradeildartitill Chelsea.
Annar Meistaradeildartitill Chelsea.
Mynd: EPA
Stuðningsmenn Chelsea fagna í London.
Stuðningsmenn Chelsea fagna í London.
Mynd: EPA
Manchester City 0 - 1 Chelsea
0-1 Kai Havertz ('43 )

Chelsea er sigurvegari í Meistaradeild Evrópu í annað sinn í sögu félagsins.

Chelsea mætti Manchester City í úrslitaleiknum í Porto í Portúgal í kvöld. Það var mikið húllumhæ fyrir leikinn þar sem plötusnúðurinn Marshmello var með um tíu mínútna skemmtun, eða ekki svo mikla skemmtun - það fer eftir því hvern þú spyrð.

Fyrri hálfleikurinn var alla vega meira fjör en þessi "skemmtun" Marshmello fyrir leik. Bæði lið fengu færi en Timo Werner, sóknarmaður Chelsea, hefði svo sannarlega getað skorað. Hann fékk tvö góð færi til að skora en tókst það ekki. Saga tímabilsins hjá honum.

Á 43. mínútu átti Werner hins vegar mjög gott hlaup sem opnaði vörn City. Mason Mount gerði allt rétt og átti frábæra sendingu inn á Kai Havertz sem gerði sömuleiðis allt rétt og skoraði. Hann kom Chelsea yfir með sínu fyrsta marki í Meistaradeildinni. Havertz var keyptur fyrir mikinn pening fyrir tímabilið. Tímabilið hefur ekki verið frábært hjá honum en þetta mark bætir líklega upp fyrir það hjá stuðningsmönnum Chelsea.

Staðan var 1-0 fyrir Chelsea þegar flautað var til hálfleiks. Vörn Lundúnaliðsins var til fyrirmyndar í leiknum.

Pep Guardiola stillti upp sóknarmiðuðu liði og var með engan varnarsinnaðan miðjumann. Þrátt fyrir það, þá tókst City ekki að skapa sér mikið. Varamaðurinn Christian Pulisic fékk besta færi seinni hálfleiks en hann setti boltinn rétt fram hjá markinu, einn á móti Ederson. Þar hefði hann átt að klára leikinn fyrir Chelsea.

Það kom ekki að sök því Chelsea náði að landa sigrinum, mark Havertz var nóg. Riyad Mahrez var nálægt því að jafna undir lokin, skot hans fór rétt yfir markið.

City hafa verið frábærir í allan vetur en þeir voru slakir á stærsta sviðinu. Chelsea hefur haft betur gegn City þrisvar í röð með stuttu millibili.

Chelsea er sigurvegari í Meistaradeildinni í annað sinn. Hinn titillinn kom 2012 þegar Chelsea vann Bayern í vítaspyrnukeppni. Man City var í fyrsta sinn í úrslitum í kvöld. Pep Guardiola hefur ekki náð að vinna Meistaradeildina í tíu ár núna. Þetta er fyrsti titill Thomas Tuchel.

Þetta var leikurinn hans N'Golo Kante. Sá var magnaður á miðju Chelsea í kvöld.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner