Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
banner
   sun 29. ágúst 2021 14:23
Brynjar Ingi Erluson
Danmörk: Stefán Teitur lagði upp bæði mörkin í sigri - Fyrsta tap Lyngby
Stefán Teitur Þórðarson lagði upp bæði mörk Silkeborg
Stefán Teitur Þórðarson lagði upp bæði mörk Silkeborg
Mynd: Getty Images
Freysi og hans menn í Lyngby töpuðu
Freysi og hans menn í Lyngby töpuðu
Mynd: Lyngby
Stefán Teitur Þórðarson lagði upp bæði mörk Silkeborg sem lagði Randers að velli í dönsku úrvalsdeildinni í dag, 2-1. Freyr Alexandersson og hans menn í Lyngby töpuðu þá fyrsta leik tímabilsins er liðið mætti Horsens í B-deildinni.

Skagamaðurinn gekk til liðs við Silkeborg í október á síðasta ári og hjálpaði liðinu að komast aftur upp í úrvalsdeildina.

Hann var að spila fimmta leik sinn í úrvalsdeildinni í dag og lagði upp fyrstu tvö mörkin sín á tímabilinu.

Stefán lagði upp fyrra markið fyrir Nicklas Helenius á 26. mínútu og það síðara á 49. mínútu áður en honum var skipt af velli sex mínútum síðar.

Góður sigur Silkeborg sem er í 6. sæti með 10 stig. Kristófer Ingi Kristinsson var í byrjunarliði SonderjyskE sem gerði 2-2 jafntefli við Viborg en Kristófer fór af velli á 65. mínútu.

SonderjyskE er í 9. sæti með 5 stig.

Fyrsta tap Lyngby

Freyr Alexandersson og lærisveinar hans í Lyngby töpuðu fyrir Horsens 2-1 í B-deildinni.

Lyngby hafði unnið fimm leiki og gert eitt jafntefli fram að leiknum í dag. Horsens leiddi með tveimur mörkum í hálfleik áður en Frederik Gytkjær minnkaði muninn á 50. mínútu.

Sævar Atli Magnússon kom inná sem varamaður hjá Lyngby á 73. mínútu en Aron Sigurðarson var ónotaður varamaður hjá Horsens.

Lyngby er í 3. sæti með 16 stig en Horsens í 5. sæti með 13 stig.
Athugasemdir
banner
banner