sun 29. ágúst 2021 13:15
Brynjar Ingi Erluson
Hanna Björg frétti af öðru hópnauðgunarmáli í morgun
Höfuðstöðvar KSÍ
Höfuðstöðvar KSÍ
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðni Bergsson, formaður KSÍ
Guðni Bergsson, formaður KSÍ
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, kennari og forkona jafnréttisnefndar KÍ, greindi frá því í viðtali í útvarpsþættinum Sprengisandur, að hún hefði frétt af annarri hópnauðgun af hálfu landsliðsmanna í morgun.

Mikil og þörf umræða hefur skapast síðustu daga í kringum ofbeldismál í knattspyrnuhreyfingunni. Hanna Björg greindi frá því í pistli á Vísi að hún vissi af mörgum kynbundnum ofbeldismálum sem að KSÍ vissi af en sambandið neitaði því að tilkynningar eða ábendingar þessu efnis hefðu ratað inn á borð til þeirra.

Guðni Bergsson, formaður KSÍ, sagði í viðtali við Fréttablaðið og Vísi, að frá því hann tók við formennsku hafi hann ekki vitað af neinu slíku máli, en dró það til baka í viðtali við RÚV og sagði þau hafa verið mistök eftir að Þórhildur Gyða Arnarsdóttir steig fram á föstudag í viðtali í fréttatíma RÚV og sagði frá ofbeldi sem hún varð fyrir af hálfu landsliðsmanns.

KSÍ fundaði í gær um stöðuna og var hart tekist á í umræðum um næstu skref en sambandið heldur áfram að funda í dag.

Hanna Björg mætti í viðtal í Sprengisandinn í morgun og sagði frá öðru hópnauðgunarmáli. Hún fékk símtal fra móður sem sagði frá hópnauðgun sem dóttir hennar varð fyrir. Þetta er annað málið sem kemur upp á skömmum tíma en Hanna Björg sagði frá frásögn konu sem varð fyrir hópnauðgun af tveimur landsliðsmönnum árið 2010.

„Það sem er áhugavert er að ég vissi ekki um mál Þórhildar sem steig fram á föstudagskvöldið þegar ég fór af stað. Ég veit um önnur mál og þau eru svívirðileg og þessi hópnauðgun sem þolandi steig fram og sagði frá í maí er ástæðan. Ég fer að kynna mér þetta þegar ég les þessa frásögn og fer að spyrjast fyrir," sagði Hanna Björg í Sprengisandinum.

„Það eru mjög mörg ofbeldismál sem hafa verið þögguð niður kerfisbundið sem eru bara viðbjóðsleg og síðast í morgun heyrði ég af einu. Það er hópnauðgun landsliðsmanna og móðir hafði samband við mig og sagði mér frá máli sem dóttir hennar lenti í."

„Það er ekki mjög gamalt. Það er nokkurra ára en ég ætla ekki að segja. Ég veit hvenær það er og hverjir gerendurnir eru. Það er bara þannig menning hér að þolendur geta ekki stigið fram og eiga hættu á að vera fjárkúgaðir af lögfræðingum geranda og úthrópaðir eins og Þórhildur er tildæmis að lenda í núna. Ennþá erum við fjandsamlegt andrúmsloft gagnvart þolendum,"
sagði hún ennfremur.
banner
banner
banner
banner