Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   sun 29. ágúst 2021 16:38
Brynjar Ingi Erluson
Nuno: Við þurfum að finna lausn
Nuno var sáttur eftir sigurinn
Nuno var sáttur eftir sigurinn
Mynd: EPA
Nuno Espirito Santo, knattspyrnustjóri Tottenham, var ánægður með framlag leikmanna í 1-0 sigrinum á Watford í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Heung-Min Son skoraði eina mark leiksins á 42. mínútu úr aukaspyrnu sem Daniel Bachmann, markvörður Watford, misreiknaði.

Þetta var þriðji sigurleikur Tottenham í deildinni og er liðið nú á toppnum með fullt hús stiga.

„Við lögðum mikla vinnu í þetta. Strákarnir hafa verið skuldbundnir hugmyndafræðinni en við þurfum að halda áfram að bæta ákveðna hluti. Frammistöðurnar hjálpa til að skapa þetta andrúmsloft," sagði Nuno.

„Við förum út fyrir okkar mörk þegar við þurfum þess. Það er nákvæmlega það sem þeir gerðu í dag. Þetta var erfiður leikur."

„Við erum með hóp af góðum leikmönnum og þeir eru allir með sín markmið en Son leggur sig alltaf fram fyrir liðið."

„Við þurfum á öllum að halda. Harry hjálpaði til við að lyfta liðinu upp og hann er að bæta sig. Hann náði 90 mínútum eftir að hafa spilað á fimmtudag og það sýnir að hann er skuldbundinn verkefninu. Við erum einnig þakklátir stuðningsmönnunum fyrir stuðninginn."


Enska úrvalsdeildin styður félögin í deildinni og ætlar að banna leikmönnum frá Suður-Ameríku að fara í landsliðsverkefni en Nuno vonar að það finnist lausn í þessu máli.

„Við þurfum lausn. Það er mikilvægt fyrir stjórnvöld að skilja stöðuna. Við áttum okkur á því að það er erfitt að segja við leikmenn að þeir geti ekki spilað fyrir landsliðin," sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner
banner