Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   mán 29. ágúst 2022 12:17
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Eru bikarmeistarar en framtíðarlandsliðskonur leita annað
Valur varð bikarmeistari um helgina.
Valur varð bikarmeistari um helgina.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ólöf Sigríður Kristinsdóttir.
Ólöf Sigríður Kristinsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Katla Tryggvadóttir.
Katla Tryggvadóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fótboltaþjálfarinn Daði Rafnsson benti á áhugaverða staðreynd í tengslum við úrslitaleikinn í Mjólkurbikar kvenna á samfélagsmiðlum í gær.

Breiðablik og Valur, tvö sterkustu lið landsins, áttust við í úrslitaleiknum. Valur fór með sigur af hólmi, 2-1.

Daði bendir á þá áhugaverðu staðreynd að í byrjunarliðum þessara tveggja liða var aðeins einn uppalinn leikmaður; Vigdís Lilja Kristjánsdóttir sem byrjaði hjá Breiðabliki. Í byrjunarliði Vals voru þrír uppaldir Blikar en engin uppalin í Val.

Á varamannabekk Blika voru fjórir uppaldar og á bekknum hjá Val voru tvær uppaldar hjá félaginu.

„Þetta blekkir smá. Atvinnukonurnar Hildur Antons, Hlín Eiríks og Berglind Rós kæmust líklega allar í byrjunarlið Vals. Sömuleiðis að Ásta Eir og Agla María voru meiddar og Hildur Þóra í Harvard hefði spilað. Andrea Rán, Selma Sól og Kristín Dís erlendis. Óvenjulega margar burtu," skrifar Daði.

Þetta eru líka tvö félög sem stefna á sigur í öllum keppnum og því ekki alltaf tími fyrir það að gefa uppöldum leikmönnum tækifæri. Það verður stundum til þess að leikmenn leita annað, en vinnubrögðin eru auðvitað mismunandi eftir félögum og svo mismunandi hvað leikmenn vilja. Valur og Breiðablik eru í öðru og þriðja sæti yfir hæsta meðalaldurinn í Bestu deildinni í sumar.

Tvær framtíðarlandsliðskonur í Þrótti
Valur missti frá sér tvær af efnilegustu leikmönnum landsins í Þrótt fyrir þessa leiktíð. Katla Tryggvadóttir, sem er fædd árið 2005, fór alfarið yfir fyrir þessa leiktíð og Ólöf Sigríður Kristinsdóttir gerði slíkt hið sama fyrir tímabilið sem núna stendur yfir. Þær voru ekki að fá tækifærin í Val og leituðu því annað til að þróa leik sinn áfram.

„Ég hef séð Kötlu spila í sumar og hún er heilt yfir búin að vera ótrúlega góð í sumar. Ég sá Þrótt spila gegn ÍBV um daginn og ég fór að pæla: Hvernig leyfði Valur þessu að gerast? Hvernig leyfði Valur henni að fara? Það er það sama með Ollu. Hvernig er þessu leyft að gerast upp á Hlíðarenda?" spurði undirritaður í Heimavellinum á dögunum.

„Þú ert ekki fyrstur til að velta þessu fyrir þér. Ég veit það ekki. Olla var ekki að spila og vildi spila. Katla vildi spila," sagði Mist Rúnarsdóttir.

Það er spurning hvort þær tvær séu ekki leikmenn sem gætu spilað með Val núna þegar þær eru aðeins búnar að fá að þróa leik sinn annars staðar. Það hefðu þær mögulega getað gert í Val ef þær hefðu fengið tækifærið til þess en það kom ekki.

„Það var mjög vel gert hjá Þrótti að pikka þær upp því þær eru báðar ótrúlega góðar í fótbolta," sagði undirritaður þá og benti Lilja Dögg Valþórsdóttir þá á að það hefði verið vel gert hjá þeim að leita annað í stærri tækifæri fyrst það var ekki að koma hjá Val.

„Mér finnst það líka rétt gert hjá Val að leyfa þeim það. Þau hljóta að vona að þær komi aftur," sagði Lilja en þeim virðist báðum líða mjög vel í Þrótti núna.

„Ég held að Olla gæti verið senter númer eitt í Val núna... ef þær halda áfram eins og þær hafa verið að gera í sumar þá eru þær báðar framtíðarleikmenn í A-landsliðinu," sagði undirritaður en hægt er að hlusta á umræðuna í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.

Sjá einnig:
Ólöf Sigríður: Fæ meiri spiltíma og meira traust frá þjálfaranum


Heimavöllurinn: París kallar, bestar í 2/3 og bikartryllingur
Athugasemdir
banner
banner