mið 29. september 2021 21:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Búið spil hjá Koeman? - Segir að Barcelona vinni ekki Meistaradeildina
Er þetta búið spil hjá Koeman?
Er þetta búið spil hjá Koeman?
Mynd: EPA
„Framtíð Ronald Koeman lítur ekki vel út eftir þessa skelfilegu frammistöðu," segir ítalski fjölmiðlamaðurinn Fabrizio Romano.

Barcelona þurfti að sætta sig við 3-0 tap gegn Benfica í Meistaradeildinni í kvöld og er liðið núna án stiga eftir tvo leiki. Börsungar töpuðu einnig 3-0 fyrir Bayern München í fyrsta leik riðilsins.

Heima fyrir er Barcelona heldur ekki að gera neinar rósir; liðið er í sjötta sæti með 12 stig eftir sex leiki.

Romano segir að Xavi, fyrrum miðjumaður Barcelona, og Roberto Martinez, landsliðsþjálfari Belgíu, séu á lista stjórnar Barcelona. Koeman virðist ekki eiga mikla framtíð hjá félaginu.

Það hefur allt verið í rugli hjá Barcelona undanfarin ár. Félagið hefur tekið heimskulegar ákvarðanir í bland við kórónuveirufaraldurinn, og það hefur skilað liðinu miklum fjárhagsvandræðum. Út af þessum fjárhagsvandræðum, þá þurfti félagið að láta Lionel Messi fara í sumar.

Koeman sagði í viðtali eftir leikinn í kvöld að Barcelona myndi ekki vinna Meistaradeildina á þessu tímabili. Já, þú segir ekki! Síðast þegar Barcelona tapaði tveimur leikjum í röð í riðlakeppni Meistaradeildarinnar, þá var Pep Guardiola, núverandi stjóri Manchester City, fyrirliði Katalóníustórveldisins.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner