mið 29. september 2021 20:00
Elvar Geir Magnússon
Declan Rice: Það er ekkert að angra mig
Declan Rice.
Declan Rice.
Mynd: Getty Images
Declan Rice segist ánægður hjá West Ham þrátt fyrir að hann hafi hafnað tveimur samingstilboðum frá félaginu. Hann segir að vangaveltur um framtíð hans séu ekkert truflandi.

Enski landsliðsmiðjumaðurinn hefur verið orðaður við Chelsea, Manchester United og Manchester City. Hann vill spila í Meistaradeildinni og hefur sýnt lítinn áhuga á að binda sig hjá West Ham.

Rice á þrjú ár eftir af samningi sínum sem er með möguleika á ári til viðbótar

„Allir vita hverjar tilfinningar mínar til West Ham eru. Allir vita hvernig mér líður að spila undir stjóranum og með þeim leikmönnum sem hér eru. Þið getið séð á frammistöðu minni að það er ekkert í gangi, það er ekkert að angra mig," segir Rice.

„Ég spila með bros á vör og leiði liðið. Í hvert einasta skipti sem ég klæði mig í treyjuna er markmið mitt að gefa allt í þetta fyrir félagið."

Rice sat fyrir svörum á fréttamannafundi sem haldinn var í aðdragandanum að Evrópudeildarleik gegn Rapid Vín sem fram fer á morgun. David Moyes, stjóri West Ham, var líka á fundinum og sagðist aldrei hafa efast um hugarfar Rice.

„Mér er illa við að segja þetta fyrir framan hann en hann er klárlega einn besti ungi miðjumaður Evrópu, ef ekki sá besti," sagði Moyes.
Athugasemdir
banner
banner