mið 29. september 2021 17:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Máni bað Brynjar afsökunar: Alls ekki rétt það sem Toddi sagði
Brynjar Gauti sýnir hvernig hann upplifði atvikið.
Brynjar Gauti sýnir hvernig hann upplifði atvikið.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Máni og Sævar Atli í leiknum.
Máni og Sævar Atli í leiknum.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Ummæli Þorvalds Örlygssonar fyrir leik Stjörnunnar og Víkings í sumar vöktu talsverða athygli. Stjarnan var án Brynjars Gauta Guðjónssonar í leiknum en Máni Austmann, leikmaður Leiknis, hafði farið í Brynjar í leiknum á undan.

Þorvaldur sagði að Máni hefði kýlt Brynjar. „Brynjar er frá eftir að hann var kýldur af Mána Austmann í síðasta leik. Hann fékk á hálsinn og á mjög erfitt með að tala. Hann getur ekki spilað," sagði Toddi í viðtalinu við Stöð 2 Sport.

Máni var til viðtals hér á Fótbolti.net í síðustu viku og var hann spurður út í þetta atvik.

„Þetta fór svolítið úr böndunum. Það kom hár bolti og ég ætlaði alltaf að fara aðeins í Brynjar Gauta og láta hann aðeins finna fyrir mér," sagði Máni.

„Svo var sagt í einhverju viðtali að ég hefði lamið hann. Það er ekki rétt, ég fór óvart með öxlina í hann á vondan stað, það var ekki það sem ég ætlaði. Ég ætlaði aldrei að meiða hann en ég ætlaði vissulega að láta finna fyrir mér."

Toddi hefur tekið full stórt til orða í viðtalinu að þínu mati? „Já, það var svolítið mikið, það var alls ekki rétt það sem hann sagði."

Hefuru rætt málin við Brynjar Gauta? „Já, ég heyrði í honum og baðst afsökunar á þessu. Ég lét hann vita að ég ætlaði að fara smá í hann en alls ekki svona."

Brynjar lék þrettán deildarleiki í sumar og lék ekki fyrr en mánuði eftir atvikið.

Alltaf smá hvatning
Máni er uppalinn Stjörnumaður og var því að spila gegn uppeldisfélaginu. Umræddur leikur fór 2-0 fyrir Leikni.

Burtséð frá þessu atviki, er skrítið að mæta Stjörnunni eða ertu orðinn vanur því?

„Af því að þeir létu mig fara á sínum tíma þá er alltaf smá hvatning að spila á móti sínu uppedisfélagi. Það er samt svipað og að spila á móti öðrum liðum, kannski gaman að mæta sumum leikmönnum því maður þekkir þá svo vel."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner