Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
banner
   mið 29. september 2021 14:55
Elvar Geir Magnússon
Sakaður um að hafa flautað AC Milan til ósigurs - „Var dómarinn í ballskák?"
Það þýðir ekki að deila við dómarann.
Það þýðir ekki að deila við dómarann.
Mynd: Getty Images
Tyrkneski dómarinn Cuneyt Cakir fær að heyra það í ítölskum fjölmiðlum fyrir störf hans í 2-1 tapi AC Milan gegn Atletico Madrid í 2. umferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

„Milan spilaði vel en dómarinn eyðilagði leikinn. Hann gerði mjög alvarleg mistök og hefði átt að vera leiðréttur af VAR," segir Fabio Capello, fyrrum stjóri AC Milan.

Cakir dómari fékk falleinkunn í La Gazzetta dello Sport en Atletico Madrid skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu í uppbótartíma. Dæmd var hendi á Pierre Kalulu en Thomas Lemar, leikmaður Atletico Madrid, virtist handleika knöttinn á undan.

Luis Suarez skoraði sigurmarkið af vítapunktinum. AC Milan lék manni færri stærstan hluta leiksins en Franck Kessie fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt þegar innan við hálftími var liðinn af leiknum. Seinna gula spjaldið þótti virkilega strangur dómur.

Abdulkadir Bitigen, landi Cakir, var VAR dómari leiksins og hann fær einnig harða gagnrýni. Il Corriere dello Sport velti því fyrir sér hvort Bitigen hafi verið að spila ballskák þegar vítaspyrnan var dæmd fyrst hann leiðrétti ekki dóminn.

Eftir tvær umferðir er AC Milan stigalaust á botni B-riðils Meistaradeildarinnar. Liverpool er á toppnum með sex stig, Atletico Madrid er með fjögur og Porto eitt.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner