sun 29. september 2024 08:50
Elvar Geir Magnússon
Búið að velja velli fyrir HM félagsliða
Úrslitaleikurinn verður á MetLife leikvangnum.
Úrslitaleikurinn verður á MetLife leikvangnum.
Mynd: Getty Images
Frá Levi's stadium.
Frá Levi's stadium.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
FIFA hefur opinberað hvaða tólf leikvangar verða notaðir á nýju HM félagsliða sem verður í Bandaríkjunum á næsta ári. Búið er að stækka mótið í 32 liða mót sem fram fer 15. júní til 13. júlí 2025.

Úrslitaleikurinn verður á MetLife leikvangnum í New Jersey, sama velli og úrslitaleikur HM landsliða 2026 verður á.

Hinir leikvangarnir á HM félagsliða verða: Mercedes-Benz leikvangurinn í Atlanta, TQL leikvangurinn í Cincinnati, Hard Rock leikvangurinn í Miami, Geodis Park í Nashville, Bank of America leikvangurinn í Charlotte, Camping World leikvangurinn í Orlando, Inter&Co leikvangurinn í Orlando, Rósaskálin í Los Angeles, Lincoln Financial Field í Philadelphia, Lumen Field í Seattle og Audi Field í höfuðborginni Washington.

Chelsea, Manchester City og Real Madrid hafa öll tryggt sér þátttöku sem sigurvegarar í Meistaradeildinni yfir síðustu fjögur ár. Bayern München, Paris St-Germain, Inter, Porto og Benfica verða einnig með í gegnum styrkleikalista.

Sex félagslið frá Suður-Ameríku og tólf frá Asíu, Afríku og Norður-Ameríku verða svo hin liðin á mótinu, ásamt einu frá Eyjaálfu og öðru frá Bandaríkjunum sem gestgjafi.

HM félagsliða hefur hingað til verið haldið um mitt tímabil og innihaldið sex lið. Ákvörðun FIFA að stækka mótið hefur fengið mikla gagnrýni frá félögum og leikmönnum, sérstaklega eftir að UEFA stækkaði Meistaradeildina of Evrópudeildina.

Miðjumaðurinn Rodri hjá Manchester City, sem meiddist illa á dögunum og spilar ekki meira á tímabilinu, varaði við því fyrr í þessum mánuði að leikmenn væru nálægt því að fara í verkfallsaðgerðir vegna leikjáálags.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner