Danska liðið Midtjylland er áfram á toppnum í dönsku úrvalsdeildinni eftir að liðið vann 3-1 sigur á Viborg í dag.
Landsliðsmarkvörðurinn Elías Rafn Ólafsson stóð á milli stanganna gegn Viborg í dag og fékk 7 í einkunn hjá FotMob.
Midtjylland er með 24 stig eftir tíu umferðir.
Daníel Leó Grétarsson og Kristall Máni Ingason voru báðir í byrjunarliði SönderjyskE sem tapaði fyrir Álaborg, 3-0. Nóel Atli Arnórsson var ekki með Álaborg í leiknum.
Álaborg er í 9. sæti með 12 stig en SönderjyskE í 10. sæti með 8 stig.
Sævar Atli Magnússon spilaði allan leikinn með Lyngby sem gerði 2-2 jafntefli við Silkeborg. Lyngby er í næst neðsta sæti með 7 stig.
Jón Dagur Þorsteinsson lék allan leikinn í liði Herthu Berlínar sem tapaði fyrir Elversberg, 4-1, í þýsku B-deildinni. Þetta var fyrsti byrjunarliðsleikur hans með liðinu sem er í 7. sæti með 10 stig.
Lærisveinar Freys Alexanderssonar í Kortrijk eru að ganga í gegnum erfiðan kafla í belgísku úrvalsdeildinni. Liðið tapaði fyrir Royal Union SG, 3-0, á útivelli.
Kortrijk hefur ekki unnið í síðustu fimm leikjum en liðið hefur tapað þremur og gert tvö jafntefli. Patrik Sigurður Gunnarsson var í marki Kortrijk sem er með 8 stig og á leið í næst neðsta sæti deildarinnar.
Atli Barkarson var með stoðsendingu í 3-0 sigri Zulte Waregem á U23 ára lið Anderlecht í belgísku B-deildinni. Atli lagði upp annað mark liðsins.
Waregem hefur farið vel af stað og er með 13 stig í öðru sæti deildarinnar eftir sex leiki.
Athugasemdir